Smásögur heimsins voru til umfjöllunar í Kiljunni í síðustu viku. Egill Helgason, Sigurður Valgeirsson og Friðrika Benónýs voru á einu máli um að safnið væri dásamlegt innlegg inn í menningarlíf landsins – „ríkur sjóður,“ sagði Egill Helgason. „Þetta er mikilvæg bók.“
Smásögur heimsins – Norður-Ameríka, er fyrsta heftið í ritröð sem kemur út hjá Bjarti á næstu árum, þar sem íslenskar þýðingar á snjöllum smásögum úr öllum heimsins hornum koma fyrir almennings augu.
Sigurður Valgeirsson var einmitt á því að það væri fyrirtaks hugmynd að fá svona nasaþef af heimsins höfundum, „manneskja sem er búin að lesa allar þessar sögur er bara komin með dálítið gott yfirlit,“ sagði hann í Kiljunni. „Já, þetta er vel valið,“ bætti Friðrika Benónýs við, „þetta er skemmtilegt ferðalag, það eru ofboðslega sterkar sögur þarna … varpar ljósi á svo margt í bandarísku þjóðfélagi.“
Það er nú einmitt það sem Bjart dreymdi um, að bjóða lesendum í skemmtilegt ferðalag um heiminn og varpa ljósi á nýja hluti! Þetta er bara fyrsta stopp! Velkomin að slást í för!