Skæri blað steinn fær dásamlega dóma í Mogganum

Fréttir

Skæri blað steinn fær dásamlega dóma í Mogganum

Skæri blað steinn eftir Naju Marie Aidt fékk ****½ – fjóra og hálfa, en fimm er fullt hús! – í Morgunblaðinu í gær.

Skæri blað steinn er fyrsta skáldsaga Aidt, en hún fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafnið Bavíana árið 2008, en það dýrlega smásagnasafn kom einmitt út hjá Bjarti. Báðar bækurnar koma út í bókaflokknum Neon. 

Hér á eftir fer þessi fagri ritdómur Önnu Lilju Þórisdóttur – sem AÐ SJÁLFSÖGÐU hælir verðlaunaþýðandanum Ingunni Ásdísardóttur sérstaklega.

Systkinin Thomas og Jenny fara í íbúð roskins föður síns eftir andlát hans, þar hefur öllu verið snúið við eins og einhvers hafi verið leitað og það eina sem þau taka með sér er brauðrist föðurins. Brauðristin reynist innihalda nokkuð sem almennt er ekki að finna í slíkum tækjum og í kjölfarið fer í gang atburðarás sem snýr lífi Thomasar á hvolf. Gömul leyndarmál koma upp á yfirborðið, ný skjóta upp kollinum, starfi og einkalífi Thomasar er stefnt í voða og stöðu hans sem karlmannsins í fjölskyldunni er ógnað þegar hinn heillandi Luke skýtur upp kollinum.

Aðalpersónan í Skæri blað steinn er Thomas, hann er um fertugt og líf hans virðist við fyrstu sýn nokkuð hefðbundið. Hann er í sambúð með Patriciu, rekur sérverslun með vönduð ritföng og skrifstofuvarning ásamt vini sínum og leggur mikið upp úr fegurð og samræmi og að hafa stjórn á sér. Systirin Jenny er andstæðan, hún vinnur láglaunastarf, kemst auðveldlega úr jafnvægi og lætur tilfinningar sínar óhindrað í ljós. Lát föðurins, sem stundaði ýmsa vafasama iðju, leysir úr læðingi áður óþekkta hegðun hjá Thomasi. Hann beitir Patriciu ofbeldi og leyndarmálið í brauðristinni, sem hann felur í kjallaranum, verður eins konar tákn fyrir þá glæpahneigð sem hann gæti hafa erft.

Sagan gerist einhvers staðar í Danmörku, staðháttum er ekki lýst þannig að hægt sé að átta sig á því hvar hún gerist og sömuleiðis er illmögulegt að átta sig á því hvenær. Þetta er ekki einsdæmi meðal danskra rithöfunda og það hefur verið kallað „Stedet“ eða „Ikke-stedet“ þegar höfundar sleppa staðsetningum í tíma og rúmi. Þetta hefur m.a. Knud Romer gert.

Persónur eru dregnar djúpum dráttum, en virðast við fyrstu sýn hálfstaðlaðar; eldri bróðirinn sem er með allt á hreinu og veiklynda yngri systirin, sambýliskonan sem þráir barn og besti vinurinn sem er léttlyndur nautnaseggur. Aidt afhjúpar persónurnar smám saman og í ljós kemur að þær eru margbrotnari en þær virðast við fyrstu sýn (eins og fólk er nú almennt). Þetta á ekki síst við um aðalpersónuna Thomas sem eftir dauða föðurs síns fer að upplifa sig sem eins konar verndara allra kvenna í kringum sig – sambýliskonu sinnar, systur, systurdóttur og roskinnar móðursystur. Á sama tíma getur hann ekki hugsað sér að eignast barn með Patriciu, en það er hennar heitasta ósk.

Skæri blað steinn er fyrsta skáldsaga Aidt, en hún fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafniðBavíana árið 2008. Bókin hefur fengið góða dóma í Danmörku og víðar og meðal þess sem vakið hefur athygli gagnrýnenda er hversu vel Aidt tekst að vefja saman lýsingu á karlmanni í miðaldra-krísu, sögu af ógæfusamri fjölskyldu, bláköldu norrænu raunsæi og spennusögu með óvæntum endi. Listileg þýðing Ingunnar Ásdísardóttur er svo punkturinn yfir býsna gott i-ið.

Anna Lilja Þórisdóttir, Morgunblaðið, 8. júní 2015


Eldri fréttir Nýrri fréttir