Sérstök blanda hversdagsleika og fantasíu

Fréttir

Sérstök blanda hversdagsleika og fantasíu

Eldur, í þýðingu Þórdísar Gísladóttur, fékk svona glimrandi dóm í Morgunblaði gærdagsins. Anna Lilja Þórisdóttir skrifar: Einkenni bókarinnar eru snjallar persónulýsingar … (og svo) er hversdagslegum raunum stúlknanna afar vel lýst, af miklu innsæi og skilningi en samt með undirliggjandi kímni.“ Niðurstaða hennar í fáum orðum er: „Í stuttu máli má segja að þessi nokkuð sérstaka blanda hversdagsleika og fantasíu, þar sem lifandi og dauðir mætast og fortíð og nútíð fléttast saman, gangi ágætlega upp. Svo er þýðing Þórdísar Gísladóttur afbragðsgóð, eins og við var að búast.“

Dóminn í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

 

Skandinavískt raunsæi og galdrastelpur

Eldur

* * * * 

Höfundar: Mats Strandberg og Sara B. Elfgren

Bjartur 2013. 501 bls.

Eldur er önnur bókin í Englafossþríleiknum, sem dregur nafn sitt af Englafossi, sænskum smábæ umluktum þéttum og dimmum skógi, sem er sögusvið bókanna. Hér kveður við nokkuð annan tón en í dystópíubókunum sem fjallað er um hér að framan, en í Eldi fléttast blákalt norrænt hversdagsraunsæi saman við fantasíu. Aðalpersónurnar eru hinar útvöldu, fimm táningsstúlkur sem allar búa yfir galdramætti, hver á sinn hátt, og þegar þær standa saman verða þær enn máttugri.

Hringurinn, fyrsta bókin í þríleiknum, hlaut afar góðar viðtökur hér á landi þegar hún kom út í fyrra, var m.a. valin besta þýdda táningabókin af starfsfólki bókaverslana. Það getur verið erfitt að endurtaka svo vel heppnaðan leik, kannski eru væntingarnar einfaldlega of miklar eftir svo vel heppnaða bók, og satt best að segja er Eldur ekki jafnvel skrifuð. T.d. er atburðarásin nokkuð lengi að fara í gang. Engu að síður er þetta fínasta lesning og hér er ýmsum spurningum svarað sem vöknuðu við lestur Hringsins.

Einkenni bókarinnar eru snjallar persónulýsingar á þessum gjörólíku unglingsstúlkum, sem eru alls engar vinkonur en neyðast til að snúa bökum saman til að vinna gegn illum öflum, fást við Ráðið sem er nokkurs konar yfirstjórn norna og galdramanna og sporna við heimsendi, sem er ekkert lítið verkefni. Að auki þurfa þær að fást við allt annað sem fylgir þessu aldursskeiði; minnimáttarkennd, félagslega stöðu innan jafningjahóps, skilningslausa foreldra og blessuð ástamálin.

Hér er margt afar vel gert, t.d. lýsingarnar á því hvernig samtök sem boða jákvæða hugsun ná smám saman undirtökunum í lífi bæjarbúa með skelfilegum afleiðingum. Þá er hversdagslegum raunum stúlknanna afar vel lýst, af miklu innsæi og skilningi en samt með undirliggjandi kímni.

Í stuttu máli má segja að þessi nokkuð sérstaka blanda hversdagsleika og fantasíu, þar sem lifandi og dauðir mætast og fortíð og nútíð fléttast saman, gangi ágætlega upp. Svo er þýðing Þórdísar Gísladóttur afbragðsgóð, eins og við var að búast.

Morgunblaðið, 25. nóvember 2013


Eldri fréttir Nýrri fréttir