Ragnar Helgi fær glimrandi súperdóm í Mogganum!

Fréttir

Ragnar Helgi fær glimrandi súperdóm í Mogganum!

Í einu ljóðanna í bók Ragnars Helga Ólafssonar myndlistarmanns, Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum, er þessi staðhæfing: „Kjarni málsins er þessi: Það eru svo mörg ljóð möguleg, en svo fá nauð- synleg“ (56). Og í bókinni má sjá listamanninn leika sér frjálslega með marga þessara möguleika, án þeirrar pressu sem legðist á hann ef skáldskapurinn væri nauðsynlegur. Í þessari athyglisverðu frumraun birtist furðu vel mótað skáld með persónulegan tón, þroskuð tök á tungumálinu og athyglisverða sýn á heiminn.

Ragnar Helgi er myndlistarmaður og hefur unnið markvisst að listsköpun sinni undanfarin ár og sýnt bæði hér heima og erlendis. En hann hefur líka verið að feta sig á forvitnilegan hátt inn í heim orðanna og fyrir þessa bók hlaut hann í haust Bókmenntaverðlaun Tómasar Guð- mundssonar. Áður hafði Ragnar Helgi sent frá sér skáldsögu og býsna gott smásagnasafn.

Ragnar Helgi er einn eftirsóttasti og frumlegasti bókahönnuður okkar og nýtur þess bersýnilega að fá nú frjálsar hendur við að hanna kápu utan um eigin orðasmíð. Það er sem lesandinn hafi í höndum bók sem eftir á að fella inn í spjöldin á bókbandsverkstæðinu; saumarnir á kili blasa við og spjöld og saurblöð eru götuð og innra gatið minna og utan um það sístækkandi hringir með illgreinanlegum myndum og textum sem gefa þó tilfinningu fyrir áhrifavöldum úr myndlistarsögu og bókmenntum. Og þetta er umbúnaður sem hæfir forvitnilegu innihaldi ljóðabókarinnar, sem skáldið veigrar sér þó við, eða leikur sér að því að gangast ekki við að séu ljóð: undirtitillinn er „Lög og textar“.

Og leikurinn er sínálægur í ljóðum og smáprósum bókarinnar, til dæmis í tveimur konkretljóðum, þar sem kinkað er kolli til þeirra skálda sem áður hafa tekist á við að skapa slíkar myndir úr orðum og ljóðlínum. Í öðru spinnst ljóðlínan í spíral svo endar í svartri klessu þar sem stafirnir hrúgast ólesandi hver ofan á annan, og í hinu, „Munurinn á vegi og hringvegi“ liggur línan í hring, er því óendanleg og hægt að byrja að lesa hvar sem er. Innan þess hrings er sama lína endurtekin, spegluð. Og línan fjallar vitaskuld um hringinn: „… hugsanir mínar eru eins og íslensk vegamynd hvora áttina sem ég vel hvorn hringinn sem ég fer þá enda ég þar sem ég byrjaði því …“ (11) – og hægt að lesa út í eitt.

Mörg ljóðanna fjalla á einn eða annan hátt um sköpunarverk listamannsins. Í „Endurbætt byggingarverkfræði“ horfir ljóðmælandinn, sem situr við skriftir, á línurnar sem hlaðast hver undir aðra og hugsar „um smið / sem byrjar á því að reisa efstu hæð blokkarinnar / og vinnur sig svo niður á við – / niður í kjallara“ (47). Í öðru ljóð segir að viðfang textans sé alltaf fjarvera, ljóð séu um skuggann af efni sínu, og svo hringir hversdagsleikinn í ljóðinu „Ekki í starfslýsingunni“ sem hefur undirtitilinn (eitt af mörgum ljóðum með undirtitli) „eða: Yfirlýsing (með þjósti)“:

Hversdagsleikinn var að hringja, hann er búinn að fá nóg af ljóðrænum inngripum skáldsins í tilvist sína. Hversdagsleikinn bað mig að koma þessum skilaboðum áleiðis til skáldsins. Ég skellti á. Ég er ekki nein helvítis senditík fyrir hversdagsleikann. (52)

Og eitthvað sem má kalla ómöguleika, eða veruleika sem skáldskapur einn getur skapað, birtist í nokkrum ljóðanna, eins og þegar ljóðmælandann langar að tala á skáldamáli án þess að rjúfa þögnina. Hann segir það ekki jafn erfitt og það kunni að hljóma: „Bara eins og / að draga kristalsglas / í lopabandi / eftir / stórgrýttri fjöru“ (13).

Þá er myndlistin sínálæg í þessum athyglisverða ljóðheimi, þar sem vísað er hugvitssamlega í ýmsar áttir, og sýnir til að mynda hér, í ljóðinu „1491-2013“, vel þá mildu íróníu og yfirveguðu heimssýn sem birtist í mörgum ljóðum Ragnars Helga:

Morgunhiminn yfir Bláfjöllunum minnir mig skuggalega mikið á blámann og skýin yfir Feneyjum árið 1491 (sjá verk endurreisnarmeistaranna). Vekur áleitnar spurningar um höfundar- og sæmdarrétt. Liturinn er næstum alveg sá sami og fjarvíddin er fullkomin. Það tók okkur hérna norður frá rétt fimm hundruð ár að ná að kópera hann sómasamlega.(27)

 

Einar Falur Ingólfsson, Morgunblaðið, 24. febrúar 2016


Eldri fréttir Nýrri fréttir