Árni Matthíasson skrifar dúndurdóm um Ástarmeistarann í Mogga dagsins. Munúðarfull saga segir hann og gefur fjórar stjörnur!
Í bréfi sem Vincent Van Gogh skrifar Theo bróður sinum segir hann svo um ástina: »Ég hef alltaf hallast að því að besta leiðin til að kynnast guðdóminum sé að elska mikið. Elskaðu vin, persónu, hlut og þá ertu kominn á braut skilnings; eða svo segi ég sjálfum mér. En þú verður að elska af alvörugefinni nærgætni, af vilja, af hugsun, og þú verður alltaf að leita að meiri og betri og rækilegri skilningi.«
Ástarmeistarinn fjallar um ást eins og nafnið gefur til kynna, en ekki bara um ást þeirrar gerðar sem Vincent ræddi við bróður sinn, heldur líka um þá ást sem leynist oft í losta, en oft eiga menn erfitt með að greina þar á milli, bjóða kynlíf og kalla það ást.
Fjölnir og Anna kynnast úti í Grímsey; hann er þar á ráðstefnu og hún starfar í eyjunni sem heilari. Frá þeirra fyrstu kynnum er ljóst að þau eru andstæðir pólar og þótt þau hrífist hvort af öðru þá skilur á milli að hann er of fróður til að geta elskað, birtingarmynd rökhyggju og vísinda, en henni er það eðlislægt að elska, enda er hún táknmynd gróanda sem nötrar í takt við árstíðirnar þótt hjarta hennar sé læst sem stendur eftir vonbrigði í ástarsambandi.
Eftir kynni, sem eru náin en ganga þó ekki alla leið, halda þau hvort í sína áttina, en ákveða að halda sambandi bréfleiðis, tefla eins konar hugmyndafræðilega bréfskák þar sem þau rekja hvort fyrir sig leitina að ástarmeistara; þeim sem getur kennt þeim að elska að nýju.
Þessi bréf gera höfundi kleift að rannsaka ástina frá ýmsum hliðum, að leiða lesandann fram og aftur í tíma, draga fram fornar ástir og nýjar, forboðnar og frjálsar; þau Fjölnir og Anna verða margs vísari í leit sinni, hann í þurrum heimi fræðanna en hún í gegnum mannleg samskipti og eigin upplifun.
Snemma í bókinni bregður fyrir annarri persónu, stúlkunni Karen Nínu, sem sækist eftir líkamlegri útrás, vill kynlíf en ekki ást og samskipti hennar og Fjölnis undirstrika það af hverju hann á svo langt í land með að geta elskað – því kynlíf án ástar, án ástúðar, er bara svengd eða þörf fyrir spennulosun.
Oddný leikur sér lipurlega með þessa tvíbentu afstöðu til kynlífs og ástar í gegnum bókina því vissulega er til kynlíf án ástar eins og þegar Fjölnir fróar sér til slökunar eftir sálfræðitíma og það er líka til ást án kynlífs eins og Vincent nefnir í margnefndu bréfi og líka sú ást sem birtist til að mynda í því er Elsa bræðir ísinn utan af Önnu systur sinni með ást í kvikmyndinni Frozen.
Það er mikið af munúð í bókinni og einkar fallegar lýsingar á mökum þeirra Fjölnis og Önnu við ýmsa sem á vegi þeirra verða. Þau vinna úr reynslu sinni á mjög ólíkan hátt, hann lendir í vanda þegar hann reynir að láta hjartað ráða og er ekki hólpinn fyrr en hann finnur sinn ástarmeistara. Anna er aftur á móti sinn eigin meistari, hún sækir innblástur í hið náttúrulega sem við berum innra með okkur enda er besta leiðin til að kynnast guðdóminum að elska mikið.