Lena skrifar um Lars

Fréttir

Lena skrifar um Lars

Lars Lagerbäck er snjall handverksmaður

 

Líkt og flestir vita sennilega kvaddi Lars Lagerbäck á Laugardalsvelli á mánudagskvöldið, þegar Ísland vann Liechtenstein 4-0 í síðasta leiknum fyrir EM í Frakklandi, en eftir EM rennur samningur hans út.

Um þarsíðustu helgi birtist grein (http://www.dn.se/ledare/kolumner/lena-andersson-lagerbacks-strava-empiri/) eftir sænsku Bjarts-skáldkonuna Lenu Andersson í dagblaðinu Dagens Nyheheter, en þar er Lena fastur leiðarapenni. Greinin fjallar um hina hrjúfu hönd Lars Lagerbäcks, sem Lena hefur heillast mjög af, svo mjög að þegar henni var boðið í sófann í vinsælum þætti hjá sænska sjónvarpinu í fyrrasumar og mátti velja hvern hún vildi spjalla við valdi hún einmitt Lars Lagerbäck sem sessunaut.

Lena heldur því fram að Lars Lagerbäck haldi á því sem hún nefnir galdrasprota skynseminnar og hafi grafið undan goðsögninni um að fótbolti eigi skylt við töfrabrögð.

Í upphafi greinarinnar rifjar Lena Andersson upp dvöl sína í Reykjavík í fyrrahaust, en þá var hún gestur á Bókmenntahátið.

Lena skrifar: „Það var rigning og kuldi í Reykjavík svo ég fór inn í búð sem seldi útivistarfatnað og keypti prjónapeysu, vindjakka, hanska og húfu, allt frá sama íslenska framleiðandanum. Fjórum dögum áður hafði ég horft á sjónvarpið heima í Stokkhólmi, þar sem Lars Lagerbäck tryggði Íslendingum öruggt sæti á EM í fótbolta. Á meðan ég borgaði spurði ég starfsfólkið í búðinni hvort þau hefðu horft á leikinn, sem þau höfðu auðvitað gert, og spurði hvort svarta húfan sem Lagerbäck var með væri úr búðinni þeirra. Þau höfðu ekki tekið eftir húfunni, en eitt þeirra andvarpaði og sagði: „Thank God for Lars“.“

Svo heldur hún áfram og segir að það að Ísland, 300 þúsund manna eyja norður við heimskautsbaug, komist á EM eftir að hafa sigrað lönd á borð við Tékkland, Holland og Tyrkland, sé eins og ef landsvæðin Lappland og Norrbotten myndu eiga sameiginlegt fótboltalið og ná þessum góða árangri. Það sem Lars Lagerbäck hafi gert á Íslandi sé svo sannarlega óvenjulegt, skrifar Lena, og heldur því fram að hann eigi sérstakan galdrasprota sem hann noti til að snúa fótboltagöldrunum á hvolf, afhelga boltann ef svo má segja. Lars hafi tekið sér það hlutverk að rústa goðsögninni um að fótbolti sé blanda af mystík, snilli og einhverju óskiljanlegu. Þess í stað einkennist stíll hans af nákvæmni, skynsemi og markvissum vinnubrögðum. Og leiðindum, segja margir. Þar sem flestir eru aðdáendur tilfinningasemi varð Lagerbäck ekki mjög vinsæll í Svíþjóð þó að honum tækist afar vel upp með sænska landsliðinu á sínum tíma. Áhorfendur kjósa frekar kúnstir, sprell og ballettspor sem Lars Lagerbäck nennir ekki að standa í. Það sem Lena heldur fram er að hann sé snjall handverksmaður í fagi þar sem menn dreymir um listrænt frelsi. Þegar handverksmaður ætlar að smíða stól þá skoðar hann efniviðinn og tekur úthugsaða ákvörðum um hvernig best sé að vinna verkið. Ef efnið er aðeins nokkrar fjalir er ekki hægt að smíða bólstraðan hægindastól og ekki rókokkóstól með flúri. En fallegan og hentugan stól er hægt að hanna. Lena segist ekki nægilega áhugasöm um fótbolta til að hafa skoðun á því hvort fótbolti eigi aðallega að vera fagur og skapandi eða hvort sigurinn sé mikilvægari. En hún segir fótbolta hvorki vera ballett eða leikhús, hann sé íþrótt og í íþróttum sækist menn fyrst og fremst eftir árangri í stað listrænnar upplifunar. Stundum verði keppnisíþróttir hins vegar dramatískar og það geti verið freistandi fyrir þjálfara með listamannsdrauma að reyna að búa til eitthvað annað en efni standa til, að víkja frá reglum handverksmannsins og spinna eitthvað upp sem er lauslega samsett og er þess vegna ranglega tekið sem list.

Lena heldur því fram að grunnur vandaðrar listar sé gott handverk og að engin alvöru list verði til með handabakavinnubrögðum og skorti á handverksþekkingu. Tilfinningar séu verkfæri, en ekki list í sjálfu sér, listin verði til við túlkun, þegar handverkið og það sem kemur út úr því renna saman og í þessu tilviki slær fótboltalið við heimskautsbaug Holland út í keppni um að komast á EM.

Undir lokin víkur Lena Andersson að spjalli sínu við Lars Lagerbäck í sjónvarpsþættinum fyrrnefnda þar sem viðhorf hans til fótboltans komu til tals. Lars var þurr á manninn og vildi helst bara ræða um sænsk sveitastjórnarmál. Þegar loks var komið að fótboltanum sagði hann „það er mikil trú, von og kærleikur í knattspyrnu, en sannleikurinn er sá að hver leikmaður hefur boltann að meðaltali í fjörutíu og fimm sekúndur í hverjum leik.“ Þetta er óneitanlega stuttur tími. Starf þjálfarans snýst því aðallega um hvað leikmennirnir eigi að gera hinar 89 mínúturnar. Að fótbolti gangi svona lítið út á boltann og svona mikið út á að verjast andstæðingunum og vera á réttum stað, er það sem Lagerbäck byggir árangursríkt starf sitt á, hvort sem það er leiðinlegt eða ekki. Lena Andersson vitnar að lokum í TS Eliot sem sagði um Ezra Pound: Il miglior fabbro. Besti handverksmaðurinn.

 

 

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir