Grípandi og átakanlegur verðlaunakrimmi

Fréttir

Grípandi og átakanlegur verðlaunakrimmi

Eva Björg Ægisdóttir hlaut spennusagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir sögu sína Marrið í stiganum sem komin er út. Það eru Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson sem standa að verðlaunum í samvinnu við Veröld. Ung kona finnst myrt í fjörunni við Akranes. Hin látna reynist hafa búið sem barn í bænum en flutti skyndilega burt ásamt móður sinni. Lögreglukonan Elma, sem er nýflutt á Skagann, rannsakar málið ásamt samstarfsmönnum sínum. Upp á yfirborðið koma ýmis skuggaleg mál úr fortíðinni en Elma þarf líka að takast á við atburði í eigin lífi sem hröktu hana aftur heim á æskuslóðirnar.

Marrið í stiganum er fyrsta bók Evu Bjargar Ægisdóttur og bar handrit hennar sigur úr býtum í samkeppninni um Svartfuglinn, glæpasagnaverðlaun sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til í samvinnu við Veröld.

„Sagan er grípandi og spennandi samhliða því að veita innsýn í myrkan og sáran veruleika. Fléttan er fagmannlega unnin, söguþráðurinn sterkur og sögulokin koma lesandanum á óvart. Spennandi og átakanleg glæpasaga eftir höfund sem án nokkurs vafa mun kveða mikið að í framtíðinni.“ Úr umsögn dómnefndar um Svartfuglinn.

Marrið í stiganum er 384 blaðsíður að lengd. Eyjólfur Jónsson braut bókina um og Aðalsteinn Svanur Sigfússon hannaði kápu.


Eldri fréttir Nýrri fréttir