Fimm stjörnu Mannsævi!

Fréttir

Fimm stjörnu Mannsævi!

Bjartur bókaútgáfa hefur gefið út skáldsöguna Mannsævi eftir Robert Seethaler. Mannsævi hefur farið sigurför um heiminn undanfarin ár, hlotið frábæra dóma og var m.a. tilnefnd til alþjóðlegu Booker-bókmenntaverðlaunanna árið 2016.

Andreas Egger er fluttur kornabarn í lítið fjallaþorp í Ölpunum rétt eftir aldamótin 1900. Þar á hann illa vist en persónueinkenni þróast með honum; seigla, líkamlegur styrkur, hneigð til einveru. Egger verður maður verka fremur en orða. Ungur maður ræður hann sig í vinnu hjá verktökum sem hyggjast reisa kláf upp á fjallstind, nútíminn heldur innreið sína í þorpið og við það breytist öll tilvera íbúanna.

Mannsævi eftir Robert Seethaler er afar áhrifamikil bók um mannlega reisn og hæfni til að sigrast á erfiðum aðstæðum. Um leið og saga Eggers er sögð í meitluðum og áreynslulausum stíl, endurspeglar hún á margvíslegan hátt sögu tuttugustu aldarinnar – sögu einnar mannsævi.

Mannsævi er fimmta bók Roberts Seethaler, sem auk þess að vera rithöfundur starfar sem leikari og býr í Berlín.

*****
Berlingske Tidende

„Sérhver setning, hvert orð, öll blæbrigði – allt er nákvæmlega hárrétt. Aðdáunarvert afrek.“
Die Welt

„Snertir mann djúpt“
Sunday Times

„Seethaler hefur skrifað þétta sögu um reisn og fegurð.“
Wall Street Journal

„Viðkvæm og áhrifamikil skoðun á hæfileika mannsins til aðlögunar. Hin margbotna saga Seethalers minnir á að hamingjuna má finna í hinu einfalda og látlausa.“
Booklist


Eldri fréttir Nýrri fréttir