Ekkert hetjulegt við stríðsrekstur!

Fréttir

Ekkert hetjulegt við stríðsrekstur!

 

Fólkið frá Öndverðu óttast ekki fræ frábæran dóm og  * * * ½ (þrjár og hálfa stjörnu) í Morgunblaði dagins.

„Hrá og óvægin þroskasaga frá Ísrael,“ er yfirskrift umfjöllunar Önnu Lilju Þórisdóttur.
 
Það er ekki oft sem kostur gefst á að skyggnast inn í líf og hugarheim ísraelskra ungmenna, en Shani Boianjiu býður upp á slíkt innlit í bók sinni Fólkið frá Öndverðuóttast ekki, sem nýlega kom út á íslensku í ágætri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Bókin hefur fengið gríðarlega góðar móttökur víða um heim, verið þýdd á fjölda tungumála og hlotið margvísleg verðlaun.

Í bókinni segir frá æskuvinkonunum Avishag, Yael og Leu sem alast upp í heldur viðburðasnauðum smábæ í Ísrael. Unglingsárin að mörgu leyti áþekk því sem þekkist annars staðar; partí, vinátta og fyrsta ástin eru helstu áhyggjuefnin. Þær eru kvaddar í herinn, rétt eins og öll önnur ísraelsk ungmenni.

Herskyldan fellur þeim lítt í geð, þeim leiðist í hernum og til að krydda tilveruna eða kannski í tilraun til að skapa einhvern annan veruleika búa þær til sögur um verkamenn sem þær hafa afskipti af á landamærastöðvum, valda nánast milliríkjadeilu með því að afklæðast á varðstöð fyrir framan egypska varðmenn og draga félaga sína í hernum á tálar.

Það eru sterkar andstæður í þessari bók, hún er óvægin og oft hrá og margt af því sem stöllurnar upplifa er yfirþyrmandi enda er stríðsógnin alltaf innan seilingar.

Avishag, Yael og Lea skiptast á um að segja söguna og stundum er maður ekki alveg viss um hver það er sem segir frá. Stíllinn er knappur og lesandinn hrífst inn í atburðarás og samfélag þar sem deilur og átök eru fyrir löngu orðin hluti daglegs lífs. Húmorinn er svartur á köflum og Boianjiu tekst sérlega vel upp í gráglettnum lýsingum á mótmælendum úr hópi Palestínumanna sem grátbiðja herlögregluna um að beita valdi svo að málstaður þeirra fái fjölmiðlaumfjöllun. Frásögnin af palestínsku börnunum sem stela girðingu frá Ísraelsher er líka kostuleg.

Í gegnum bókina skín gagnrýni á að ungt fólk í blóma lífsins sé látið gegna herþjónustu og sett í aðstæður þar sem kringumstæðurnar eru yfirleitt afar fjarri daglegu lífi. Boianjiu hefur lýst þessari skoðun sinni í viðtölum. „Tilvist hers er brosleg í mínum augum. Að taka unga krakka, klæða þá upp og veita þeim titla og ábyrgð.“ Sjálf gegndi hún herskyldu frá 18-20 ára og segist hafa upplifað sumt af því sem frá er sagt í bókinni.

Þetta er þroskasaga þriggja stúlkna, en fylgir þó ekki hefðbundinni formúlu slíkra bóka því hér eru þær teknar úr sínu umhverfi og heimahögum og settar í herinn þar sem þær eiga engra annarra kosta völ en að þroskast. Og eftir lesturinn situr sú hugmynd eftir að það sé nákvæmlega ekkert rómantískt eða hetjulegt við stríðsrekstur.

Anna Lilja Þórisdóttir,

Morgunblaðið, 23. október 2013


Eldri fréttir Nýrri fréttir