Eiríkur í stjörnuregni Morgunblaðsins

Fréttir

Eiríkur í stjörnuregni Morgunblaðsins

 

Leikur að mörkum er yfirskrift glimrandi ritdóms um skáldsögu Eiríks Guðmundssonar, 1983, í Morgunblaði dagsins. Þórunn Kristjánsdóttir gefur bókinni fjórar stjörnur (* * * *) og talar um hnyttnar lýisngar og þétta ljóðræna kafla. „Dægurmenning skipar stóran sess,“ skrifar Þórunn, „tónlist, tíska, tölvuleikir, fyrsta ástin og spennufíkn…“ 

 

Dómurinn birtist í heild sinni hér fyrir neðan:

 

Leikur að mörkum.

 

Mörk skáldskapar og veruleika renna saman í skáldsögunni 1983. Slíkt kemur ekki á óvart þegar rýnt er í verk Eiríks Guðmundssonar.

Verkið er fyrstu persónu frásögn sem hverfist um unglingsdreng sem aldrei er nefndur á nafn. Hann er búsettur í litlu þorpi á landsbyggðinni og velkist um bæinn ásamt félögum sínum, brallar ýmislegt, fiktar við vímuefni og síðast en ekki síst hristir ástin verulega upp í tilveru piltsins.

Þorpið sem um ræðir er Bolungarvík þar sem Eiríkur sjálfur ólst upp. Enda hefur höfundur hvorki farið í grafgötur með sögusviðið né hvaðan persónan er sprottin.

Bygging verksins skiptist á milli frjáls vitundarflæðis og snarpari kafla. Þar eru beinar lýsingar á þorpsbúum og samskiptum hans við þá. Textinn er þéttur, ljóðrænn, kaldhæðnislegur og fullur af tónlist. Innra líf drengsins endurspeglast í texta þar sem setningarnar eru langar, geta orðið allt að tíu línur, afmarkaðar af ótal kommum. Sumar eru hreint mergjaðar á köflum. „[Þ]að eru tvær sólir á lofti, önnur skín á þig, hin á mig, en tunglskinið sameinar okkur, í silfrinu sínu.“ (s. 183)

Pilturinn er milli tveggja heima – unglingur. Í kofa í fjallshlíð kemur vinahópurinn saman og sýpur á göróttum drykkjum. „Þetta voru feilsporin, en stundum eru þau mikilvægust. Þau mega bara ekki vera of mörg og ekki koma hvert á eftir öðru eins og þegar maður gengur upp stiga.“ (s. 122)

Þá er áhugavert að skoða samband feðganna. Þeir eru jafnólíkir og tónlistin sem þeir hlusta á. Eru hvor á sinni bylgjulengd.

Sögumaðurinn er hraðlyginn. Hann á það til að hagræða sannleikanum og ljúga gamalt fólk uppfullt af vitleysu. Þær lýsingar eru óborganlegar.

„[A]ð lifa er að færa lífið til bókar, jafnóðum og því vindur fram,“ (s. 96) segir hrekkjótti sögumaðurinn sem keppist við að fanga veruleikann. Sjálfssöguleg einkenni verksins birtast í athöfnum drengsins en segulbandstæki er aldrei langt undan því hann er að skrásetja sögu einnar persónunnar. Í lok verksins birtist söguhetjan, þá fullorðinn að heimsækja þorpið.

Dægurmenning skipar stóran sess, tónlist, tíska, tölvuleikir, fyrsta ástin og spennufíkn eru drifin áfram af taktföstum tónum með vísunum í poppmenningu áttunda áratugarins. 

Endurtekningarnar í verkinu sýna allt að því þráhyggjukennda hugsun drengsins sem virðist lokast sífellt meira inni í eigin heimi. Kanarífugl skýtur upp kollinum og er söguhetjan sjálf, lítill, pervisinn og rammvilltur. Fuglinn er náskyldur flamengóanum í eldra verki Eiríks Undir himninum.

Þunginn og þögnin stigmagnast þegar líður á söguna og einsemdin verður nánast áþreifanleg. Þá verða lýsingar á fólkinu í plássinu ekki eins fyrirferðarmiklar og hugsanir sögupersónunnar taka yfir. Meðal kosta verksins eru hnyttnar lýsingar og þéttir ljóðrænir kaflar.

Kápa bókarinnar er ekki bara töff heldur nær hún að endurspegla innihald verksins. Þessi endalausi leikur höfundar að mörkum veruleika og skáldskapar verður seint þreyttur.

 

Þórunn Kristjánsdóttir, Morgunblaðið, 21. desember 2013


Eldri fréttir Nýrri fréttir