Einsog hann skilji mannskepnuna betur en aðrir

Fréttir

Einsog hann skilji mannskepnuna betur en aðrir

Ingveldur Geirsdóttur skrifa fimm stjörnu þrusdóm um Fiskarnir hafa enga fætur, eftir Jón Kalman, í sunnudagsmoggann. „Hjartnæm ættarsaga,“ er yfirskrift dómsins og hún segir að hér sýni Jón Kalman alla sína bestu takta. „Það virðist sem [hann] skilji mannskepnuna betur en flestir aðrir og hvernig lífið leikur hversdagsmanneskjuna …“— flottara verður það nú varla!

Dómurinn í heild sinni birtist hér fyrir neðan:

 

HJARTNÆM ÆTTARSAGA

Eftir Jón Kalman Stefánsson. Bjartur 2013. 358 bls.

Eftir mikilfenglegan þríleik sendir Jón Kalman Stefánsson nú frá sér sögu sem gerist á þrennum tímum; á Norðfirði í byrjun tuttugustu aldarinnar, í Keflavík um 1980 og Keflavík núna. Um ættarsögu er að ræða.

Ari heitir aðalsögupersónan, hann er að flytjast aftur heim til Íslands eftir nokkurra ára dvöl í Danmörku og óhjákvæmilega lendir hann í gamla heimabæ sínum við komuna til landsins. Ari bjó í Keflavík frá 12 ára aldri og fram á fullorðinsár og fáum við að heyra sögur úr lífi hans á þeim tíma þegar Keflavík stóð í „blóma“; fiskurinn og herinn. Föðurfjölskylda Ara býr á þeim tíma að hluta í Keflavík en pabbi hans og systkini eru fædd og uppalin á Norðfirði. Og til Norðfjarðar fer sögumaðurinn líka með okkur og segir frá ömmu og afa Ara sem heyja þar baráttuna við lífið, sjóinn og ástina. Þeir fortíðarkaflar bókarinnar eru afskaplega áhrifaríkir.

 Eins og í öðrum bókum Jóns Kalmans er rödd sögumannsins sterk, hann er allt í kring. Fyrst kemur hann fram eins og vinur Ara en svo kemur í ljós að hann er hugur Ara eða jafnvel fjölskyldusálin sem ferðast með okkur á milli ættingja.

 Þrátt fyrir að sagan skiptist í þrenna sögutíma er farið víða. Við fáum t.d. að heyra um dvöl Ara í sveit í Dölunum á unglingsárum, lesandinn er þá kominn á kunnuglegar slóðir í bókum Jóns Kalmans. Rykormurinn sem kemur fyrir í fyrstu bókum hans snýr þarna aftur og unglingspilturinn í sveitinni sem er að reyna að skilja lífið. Við fáum líka að heyra frá hjónabandsvandræðum Ara sem eru ástæðan fyrir flótta hans frá landinu á sínum tíma.

 Fiskarnir hafa enga fætur er bók full af söknuði og lífsbaráttu bældra og vinnusamra Íslendinga á tuttugustu öldinni. Sögupersónurnar eiga það flestar sameiginlegt að forðast það að tjá sig og það virðist vera upphafið að sorginni og söknuðinum: karlmennirnir tjá ást sína með því að kreppa hnefann, með því að sópa öllu af eldhúsborðinu og ganga út eða með því að tala ekki saman og aðhafast ekkert. Innst inni eru þeir samt að springa af orðum og öllu öðru sem þeir koma ekki frá sér. Hvað lífið væri auðveldara ef við þyrðum að nota meira af orðum.

 Það virðist sem Jón Kalman skilji mannskepnuna betur en flestir aðrir og hvernig lífið leikur hversdagsmanneskjuna sem er margbrotnari en margur heldur. Orðin eru ekki að þvælast fyrir höfundinum sem raðar þeim í svo fallegar og sannar setningar að það þarf að lesa þær aftur og aftur og átta sig á áhrifum þeirra á eigið líf.

 Aðdáendur þríleiksins og aðrir unnendur góðra sagna eiga ekki eftir að vera sviknir af þessari bók, hér sýnir Jón Kalman alla sína bestu takta.

 Ingveldur Geirsdóttir, Morgunblaðið, 15. desember 2013


Eldri fréttir Nýrri fréttir