Ég man þig lofuð í Bandaríkjunum

Fréttir

Ég man þig lofuð í Bandaríkjunum

Yrsa Sigurðardóttir hlýtur mikið lof í Bandaríkjunum fyrir sögu sína Ég man þig sem væntanleg er á markað þar í landi þann 25. mars. Tímarit sem bóksalar og bókaverðir taka mikið mark á við innkaup sín hafa mært draugasögu Yrsu og sagt að hún sé í fremstu röð norrænna glæpasagnahöfunda þegar kemur að því að framkalla gæsahúð, Ég man þig sé glæsilega ofinn yfirnáttúrlegur tryllir og sagan sé hrikalega ógnvekjandi.

 

Ég man þig kom fyrst út árið 2010 og var valin besta íslenska glæpasagan. Þá hefur bókin setið á metsölulistum víða um lönd og erlendir dómar verið lofsamlegir. Barry Forshaw, helsti sérfræðingur Breta í norrænum glæpasögum, skrifaði í Independent: „Yrsa er jafnoki Stephen King þegar kemur að því að skapa óhugnað og ótta hjá lesandanum.“ Gagnrýnandi Guardian tók í sama streng og sagði að sagan væri snilldarlega fléttuð og með ókjörum af spennandi augnablikum. Gagnrýnanda Verdens Gang í Noregi fannst sagan óbærilega spennandi en dýpst tók sennilega í árinni gagnrýnandi The Times sem sagði: „Æsispennandi tryllir sem vekur taumlausa skelfingu hjá lesandanum.“

 

Lesandinn hrópar á aðalpersónuna

„Hin íslenska drottning glæpasögunnar tvinnar saman nútíma glæpasögu við hið dulræna sem hefur hrollvekjandi áhrif. …  Yrsa þyrlar þegar í byrjun sögu upp óveðursskýjum þannig að lesandinn stendur sig að því að hrópa á Katrínu að láta staðar numið og snúa aftur heim þegar hið óútskýrða verður algjörlega skelfilegt. Það standast fáir norrænum glæpasagnahöfundum snúning í því að framkalla gæsahúð og Yrsa sýnir hér að hún er meðal þeirra bestu.“ – Booklist.

 

Glæsilega ofinn yfirnáttúrlegur tryllir

 „Glæsilega ofinn yfirnáttúrlegur tryllir … höfundurinn fléttar þræðina tvo í sögunni þannig að endalokin eru fullkomlega ófyrirsjáanlegt þar sem blandast saman bestu þættir glæpasögunnar og hins yfirnáttúrlega“ Publishers Weekly 

 

Hrikalega ógnvekjandi

„Yrsa hefur hér skrifað frábæra og hrikalega ógnvekjandi glæpasögu sem blandast saman við hið yfirnáttúrlega.“ Library Journal 

 

Ég man þig

Ég man þig kom út árið 2010 og vann Blóðdropann – Íslensku glæpasagnaverðlaunin og Tindabykkjuna – verðlaun Glæpafélags Vestfjarða og varð ein mest selda bók ársins, bæði 2010 og 2011. Ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri í Jökulfjörðum um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á sama tíma dregst ungur læknir á Ísafirði inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu. Hún virðist hafa verið hugfangin af syni hans sem hvarf fyrir þremur árum – og fannst aldrei. 


Eldri fréttir Nýrri fréttir