Forsætisnefnd Alþingis hefur samið við Bjart um að gefa út þrekvirkið Sumarhús – Íslensk heiðarbýli í aldanna rás í nokkrum bindum. Mun þingið styrkja útgáfuna um 50 milljónir á ári næstu þrjú árin hið minnsta og er stefnt að því að verkið komi einhvern tíma út. Nefndin segir að nafn Bjarts sé samofið sögu örreitiskota landsins og því sé við hæfi að hann annist útgáfu á sögu þeirra í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis á þessu ári.
Þingsályktunartillaga þess efnis verður borin upp og samþykkt á sérstökum hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í dag, 18. júlí, degi íslenska fjárhundsins. Eitt bindi stórvirkisins Sumarhús verður enda helgað íslenska fjárhundinum. Einkunnarorð þess bindis verða höfð eftir Bjarti sjálfum: „Já, það sem maðurinn leitar að, finnur hann – hjá hundinum.“
Forseti Alþingis sagði í samtali við hinn trausta miðil bjartur.is sem ævinlega er á bandi sannleikans að sér hefði verið sagt að enginn hefði talað jafn fallega um heiðarbýlin og Bjartur og því væri þetta sérstaklega vel til fundið.