Sú fáheyrða staða hefur komið upp að 1. janúar ber upp á nýársdag sem er almennur frídagur. Því hefur verið ákveðið að framlengja frest til að skila inn handriti í samkeppni um Svartfuglinn til 2. janúar 2020!
Rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til þessara glæpasagnaverðlauna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld, fyrir tveimur árum. Eva Björg Ægisdóttir hlaut verðlaunin fyrst allra fyrir sína Marrið í stiganum sem varð ein mest selda skáldsaga ársins. Rétturinn á sögunni hefur þegar verið seldur til Englands, Frakklands og Hollands. Í ár hlaut Eiríkur P. Jörundsson verðlaunin fyrir Hefndarengla.
Verðlaunin eru veitt fyrir handrit að áður óbirtri glæpasögu og er við það miðað að sagan komi út hjá Veröld í upphafi Viku bókarinnar í apríl ár hvert. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.
Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson skipa dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar. Handitum skal skilað í þríriti til Veraldar að Víðimel 38, 107 Reykjavík, fyrir lok dags 2. janúar næstkomandi. Þau eiga að vera merkt dulnefni en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi. Höfundurinn má ekki hafa gefið út glæpasögu áður. Þegar dómnefndin hefur lokið störfum sínum verður haft samband við verðlaunahöfundinn. Handritunum sem bárust í keppnina verður síðan eytt.
Yrsa og Ragnar vilja með þessum verðlaunum hvetja höfunda til að spreyta sig á þessu bókmenntaformi, greiða þeim leið til útgáfu og stuðla að því að fleiri skrifi bækur á íslenskri tungu. Jafnframt vonast þau til að verðlaunin hjálpi nýjum höfundum að komast að hjá erlendum bókaforlögum.