Ólafur Jóhann með fullt hús!

Ólafur Jóhann með fullt hús!

Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er „heillandi“, „kraftmikil“, „meistaralega upp byggð“ og aðalpersónan ógleymanleg að mati gagnrýnenda í Bandaríkjunum. Öll helstu fagtímarit vestra, sem birta umsagnir um bækur í aðdraganda að útgáfu þeirra, hafa borið einróma lof á bókina en hún kemur út þar í landi í byrjun desember. Afar sjaldgæft er að þessir miðlar séu sammála í hrósi sínu á væntanlegum bókum. Sakramentið var fyrst gefið út á Íslandi fyrir tveimur árum og hlaut afar góðar viðtökur. 

Jafnvægið milli réttlætis og hefndar
Gagnrýnandi Kirkus Review skrifar í umsögn sinni: „Lestur Sakramentisins skilur eftir sig góða tilfinningu en tekur um leið á andlega  – heillandi skáldsaga sem fangar huga lesandans og sleppir honum ekki.“ Í dómi í Publishers Weekly er tekið í sama streng en þar segir: „Hrífandi og kraftmikil saga um misgjörðir kaþólsku kirkjunnar … [höfundurinn] leiðir söguna stórkostlega til lykta, kafar djúpt í jafnvægið á milli réttlætis og hefndar, mátt sakfellingarinnar, fyrirgefningar syndanna og endurlausnarinnar. Þetta er hárbeitt skáldsaga.

Ruglar okkur stöðugt í ríminu
Gagnrýnandi Booklist segir að þetta sé „grípandi og meistaralega upp byggð saga um endurlausn og réttlæti“ og Library Journal mælir með henni við bókaverði á bókasöfnum Bandaríkjanna: „Ólafur Jóhann fléttar listilega saman nútíð og fortíð … Fyrstu persónu frásögn nunnunnar virðist þurr og hlutlaus en sagan ruglar okkur stöðugt í ríminu, sigtar úr minningunum, og þróast síðan yfir í lágstemmdan sálfræðitrylli.“

Þá mælir bókmenntasíðan The Nerd Daily með Sakramentinu í ársuppgjöri sínu og segir að sagan sé „afar áleitin og lífleg“. 

Ein af metsölubókum ársins 2017
Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson var ein af metsölubókum ársins 2017 og hlaut einróma lof hérna heima. Nemandi í Landakotsskóla verður vitni að því þegar séra Ágúst Frans skólastjóri hrapar niður úr turninum á Kristskirkju. Tveimur áratugum síðar vill drengurinn hitta nunnuna sem í aðdraganda þessa atburðar var fengin til að rannsaka framkomu skólastjórans við nemendur. Kynni hennar af Íslandi og Íslendingum umturnuðu lífi hennar og hún er enn með hugann við snjóinn í kringum svarta kirkjuna og skólahúsið hjá kirkjunni og líkið í snjónum.

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir