Ljóðaunnendur eiga að hlaupa út í búð! segir Kolbrún Bergþórsdóttir í Mogga

Fréttir

Ljóðaunnendur eiga að hlaupa út í búð! segir Kolbrún Bergþórsdóttir í Mogga

Ljóðavalið er svo gott að það er eiginlega hafið yfir gagnrýni, segir frú Kolbrún Bergþórsdóttir í Mogganum um helgina: Það sést líka svo vel að ljóðin eru valin af manni sem er ákaflega elskur að skáldskap. Ljóðabók sem enginn má láta framhjá sér fara! Sjáið þennan skemmtilega pistil Kolbrúnar hér:

„Bækur og bókmenntir eru ekki það sama, eins og metsölulistar sýna svo iðulega. Lífsstílsbækurnar sem raða sér á metsölulista ein af annarri og boða skjóta lausn á offituvanda flokkast alveg örugglega ekki undir bókmenntir. Þær segja hins vegar sitthvað um þrá manna eftir skyndilausnum. Sú sem þetta ritar þráir nú bara helst að góð skáldverk velti þessum bókum úr efstu sætum metsölulista.

Ein besta bókin sem nú er á markaði mun líklega alls ekki komast á metsölulista eins og hún ætti svo vel skilið. Undir vernd stjarna heitir sú bók og geymir ljóð úr ýmsum heimshornum sem Jón Kalman Stefánsson valdi og þýddi.

Það er greinilegt að Jón Kalman hefur lagt mikla alúð í ljóðavalið, sem er svo gott að það er eiginlega hafið yfir gagnrýni. Það sést líka svo vel að ljóðin eru valin af manni sem er ákaflega elskur að skáldskap.

Höfundar ljóðanna eru átján. Fyrsta skáldið sem á ljóð í bókinni er hinn pólskiAdam Zagajewski og eftir að hafa lesið ljóð hans er ein fyrsta hugsunin sem flögrar að manni: »Af hverju hefur þessi maður ekki fengið Nóbelsverðlaunin?« Og svo sér maður í stuttum og greinargóðum eftirmála Jóns Kalmans að höfundurinn hafi einmitt ósjaldan verið orðaður við Nóbelsverðlaunin. Svo rekur hvert skáldið annað, þar á meðal Langston Hughes, höfundur ljóðsins Blökkumaðurinn, sem hlýtur að hafa áhrif á þá sem það lesa, og þá til hins betra.

Og svo er Charles Bukowski og hið stórskemmtilega ljóð hans Þeir og við þar sem Hemingway, Faulkner, Gertrude Stein og fleiri rithöfundar sitja á tali meðan faðir Bukowskis segir að þetta aðgerðalausa lið ætti að fá sér vinnu og móðir hans óskar þess að þessi sami hópur fari nú að þegja. Þetta er ískrandi fyndið ljóð. Þarna er kona sem er eitt besta ljóðskáld Breta, Jo Shapcott, sem eins og Jón Kalman segir yrkir stundum undurfurðuleg ljóð, en einmitt það er svo heillandi.

 Ljóðaunnendur eiga að hlaupa út í búð og kaupa Undir vernd stjarna.#

Kolbrún Bergþórsdóttir, Morgunblaðið 27. október 2013


Eldri fréttir Nýrri fréttir