Fyrsti Svartfuglinn fundinn!

Fréttir

Fyrsti Svartfuglinn fundinn!

Dómnefnd í glæpasagnasamkeppninni um Svartfuglinn hefur nú lokið störfum og valið verðlaunahandritið. Dómnefndinni var vandi á höndum, á þriðja tug handrita barst í samkeppnina og mörg þeirra mjög álitleg. Það er augljóslega mikil gróska í glæpasagnaskrifum um þessar mundir og margir prýðisgóðir rithöfundar reyna fyrir sér á þessum vettvangi. Verðlaunin verða veitt í viku bókarinnar í lok apríl og kemur þá í ljós hver verðlaunahöfundurinn er. Verðlaunahandritið kemur út á bók sama dag.

Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki sent frá sér áður glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld, og eru þau í fyrsta sinn veitt í ár. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015. Yrsa og Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.

Búið er að hafa samband við verðlaunahöfundinn. Höfundar geta vitjað handrita sinna á skrifstofu Bjarts og Veraldar að Víðimel 38. Þann 1. apríl verður þeim handritum sem ekki hafa verið sótt fargað.


Eldri fréttir Nýrri fréttir