Enginn Svartfugl í ár

Enginn Svartfugl í ár

Svartfuglinn verður ekki veittur í ár. Dómnefnd um glæpasagnaverðlaunin tókst því miður ekki að vera sammála um hvaða handrit verðskuldaði að hljóta verðlaunin. Alls bárust ríflega tíu handrit í samkeppnina og voru þau mjög ólík að gerð, innihaldi og stíl sem sýnir að mjög mikil fjölbreytni er á íslenska glæapasagnaakrinum.

Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Unnur Lilja Aradóttir hlaut verðlaunin á síðasta ári, Katrín Júlíusdóttir árið 2020, Eiríkur P. Jörundsson 2019 en fyrst til að bera sigur úr býtum í samkeppninni var Eva Björg Ægisdóttir árið 2018 en verðlaunabók hennar, Marrið í stiganum, var í fyrra valin frumraun ársins í Bretlandi.

Glæpasagnahöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu. Yrsa og Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.


Eldri fréttir Nýrri fréttir