Auður Ava Ólafsdóttir
Auður Ava Ólafsdóttir hefur gengið til liðs við Bjart, Bjarti til gífurlegs yndisauka og ómældrar ánægju. Auður Ava er höfundur þriggja skáldsagna: Upphækkuð jörð (1998), Rigning í nóvember (2004) og Afleggjarinn (2007) og ljóðabókarinnar Sálmurinn um glimmer (2010). Í haust verður frumsýnt nýtt leikrit eftir Auði í Þjóðleikhúsinu og sömuleiði er von á nýrri skáldsögu.
Rigning í nóvember hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og síðasta skáldsaga Auðar, Afleggjarinn, hlaut menningarverðlaun DV, Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Afleggjarinn hefur þar að auki farið sannkallaða sigurför hinn frönskumælandi heim, en bókin kom út í Frakklandi í fyrra, undir titlinum Rosa candida. Bókin var tilnefnd til fjölda virtra verðlauna, meðal annars Femina-verðlaunanna, verðlauna sem kennd eru við bóksölurissan Fnac og bókmenntaverðlauna hins virta bókmenntatímarits Lire. Afleggjarinn hlaut Prix de Page-verðlaunin, sem besta evrópska skáldsagan sem kom út í Frakklandi árið 2010. Bókin hefur fengið umfjöllun í flestum fjölmiðlum Frakklands, svei mér þá, selst í tugþúsundum eintaka og hlotið einróma lof gagnrýnenda: „fágæt bók, full af fegurð,“ „hvílik gersemi, töfrarnir virkuðu strax,“ „ein óvæntasta og stórkostlegasta uppgötvun ársins,“ „töfrandi … þessu verða allir að kynnast! segja franskir um Afleggjarann“ Þá er þess skemmst að minnast að á mánudaginn var hlaut bókin virt bókmenntaverðlaun í Quebec, Kanada.
Við bjóðum Auði Övu hjartanlega og innilega velkomna í hópinn og hlökkum til samstarfsins.