Til fundar við skáldið Halldór Laxness
Ólafur Ragnarsson

Til fundar við skáldið Halldór Laxness

Fullt verð 4.990 kr 0 kr

Í þessari áhugaverðu bók, Til fundar við skáldið Halldór Laxness dregur Ólafur Ragnarsson upp mynd af rithöfundinum og manninum. Lesandinn heldur með Ólafi til fundar við Halldór, fylgist með samtölum þeirra og nýtur þess að vera í glaðlegri návist Nóbelsskáldsins.

Hér er að stærstum hluta byggt á kynnum þeirra í tæp þrettán ár, samskiptum skálds og útgefanda.

Ólafur ræðir við Halldór um allt milli himins og jarðar; Erlend í Unuhúsi, skáldskap og Stalín, klæðaburð og filmumannavín, eilífa menn í Leipzig og sporthundakyn á langdvalarhóteli, svo fátt eitt sé nefnt.

Inn í samtölin er smeygt stuttum brotum úr óbirtum einkabréfum Halldórs, nótissuheftum, handritum, bókum og öðrum heimildum til glöggvunar. Líklega er hér að finna síðustu óbirtu samtölin við Halldór Laxness – og örugglega einhver þau skemmtilegustu.

Ólafur Ragnarsson var umsvifamikill bókaútgefandi um tveggja áratuga skeið en áður hafði hann verið landskunnur fréttamaður og ritstjóri. Hjá Vöku-Helgafelli gaf hann meðal annars út verk Halldórs Laxness.

Ólafur hefur áður sent frá sér tvær bækur um Nóbelsskáldið, Lífsmyndir skálds (1992), ásamt Valgerði Benediktsdóttur, og Líf í skáldskap (2002). Hann skrifaði einnig ævisögu Gunnars Thoroddsen (1981). Þá ritstýrði hann bókunum Af menníngarástandi, greinasafni Halldórs Laxness (1986), Frelsi að leiðarljósi, úrvali úr ræðum Gunnars Thoroddsen (1982) og Íslensku þjóðsagnasafni (2000).

 


Fleiri bækur