Þrautgóðir á raunastund
Steinar J. Lúðvíksson

Þrautgóðir á raunastund

Fullt verð 3.990 kr 0 kr
Út er komin hjá Veröld bókin Þrautgóðir á raunastund – 1975–2000 eftir Steinar J. Lúðvíksson. Á árunum 1975–2000 fórust 384 Íslendingar í sjóslysum. Mun fleiri var þó bjargað úr sjávarháska, stundum eftir langa og skelfilega atburðarás þar sem líf sjómanna og björgunarmanna hékk á bláþræði. Hér er fjallað um níutíu af þeim sjóslysum sem áttu sér stað á þessu tímabili og má þar nefna þegar Suðurlandið fórst langt úti í hafi 1986, Helliseyjarslysið 1984, strand Pelagusar 1982, hetjudáðina í Vöðlavík 1993 og frækilega björgun þyrluáhafnar TF LÍF sem bjargaði 39 mönnum úr sjávarháska á nokkrum dögum 1997.

Mörgum atburðanna lýsa menn sem hlut áttu að máli, ýmist sem björgunarmenn eða þeir sem bjargað var. Hér er á ferðinni áhrifamikil og oft átakanleg samtíðarsaga, einn af sviplegustu þáttum Íslandssögunnar.

Steinar J. Lúðvíksson er höfundur ritraðarinnar Þrautgóðir á raunastund sem kom út í nítján bindum á árunum 1969–1988 og naut fádæma vinsælda. Hér tekur hann upp þráðinn þar sem frá var horfið og fjallar um síðasta fjórðung tuttugusta aldarinnar.

Þrautgóðir ár raunastund er 369 blaðsíður að lengd. Eyjólfur Jónsson braut bókina um og Jón Ásgeir hannaði kápu.


Fleiri bækur