Þórdís Gísladóttir

Þórdís Gísladóttir rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld, er fædd í Hafnarfirði.

Þórdís hefur, þegar þetta er ritað, gefið út tvær ljóðabækur,  tvær bækur um Randalín og Munda og fjölmargar þýðingar, hjá Bjarti. Þá er Þórdís prýðilegur yfirlesari og einstakur álitsgjafi, þegar mikið liggur við.

Þórdís er sérlega verðlaunasækin; hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu ljóðabók sína, Leyndarmál annarra, sem Bjartur gaf út haustið 2010. Hún var  tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á hinni sænsku Allt er ást eftir Kristian Lundberg (neon-bókaflokkurinn árið 2012).

Randalín og Mundi kom út árið 2012 og fyrir hana hlaut Þórdís bæði Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin – og Randalín og Mundi í Leynilundi kom út ári síðar, árið 2013. Bjartur lætur sig dreyma um að von sé á fleiri ævintýrum þeirra vinanna.

Vorið 2014 kom út ljóðabókin Velúr, sem vakti verðskuldaða athygli og einlæga gleði lesenda. En á fullveldisdaginn 1. desember var hún, ásamt 4 öðrum skáldverkum, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bravó! Um það er nánar fjallað hér.

 

 

 Þórdís Gísladóttir les hér upp úr bókinni Tilfinningarök. Kiljan, haust 2015.