Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör
Stórfróðleg bók þar sem Styrmir Gunnarsson leggur spilin á borðið í hreinskilnu uppgjöri við Sjálfstæðisflokkinn og íslensk stjórnmál liðinna áratuga. Hann veitir lesandanum einstaka innsýn í heim sem hefur verið hulinn almenningi og byggir þar að miklu leyti á minnispunktum sínum af lokuðum fundum í innsta hring flokksins og trúnaðarsamtölum þar sem rætt var tæpitungulaust um viðkvæm mál.
Styrmir bregður hér nýju ljósi á mörg af stærstu málum undanfarinna áratuga en greinir jafnframt frá átökum um ráðherrastóla, formennsku í flokknum, stöðu seðlabankastjóra, hvort sprengja ætti ríkisstjórn, svo fátt eitt sé nefnt. Á þessum árum geisuðu hatrammar deilur innan flokksins og er saga þeirra vígaferla rakin í bókinni.
Hér er lesandanum boðið inn í bakherbergi stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar þar sem tekist var harkalega á – fjarri kastljósi fjölmiðlanna.
Bókin er 280 blaðsíður að lengd. Jón Ásgeir hannaði bókarkápu og Eyjólfur Jónsson sá um umbrot og hönnun innsíðna. Bókin er prentuð í Odda.