Benjamín dúfa
Friðrik Erlingsson

Benjamín dúfa

Fullt verð 1.990 kr 0 kr

Sagan um Benjamín dúfu og vini hans er ein vinsælasta barnabók síðari tíma og hefur skilið eftir sig djúp spor hjá nokkrum kynslóðum íslenskra lesenda. Hér segir frá viðburðaríku sumri í lífi fjögurra vina. Þeir stofna reglu Rauða drekans og Róland dreki, Andrés örn, Baldur hvíti og Benjamín dúfa hafa nóg fyrir stafni í baráttu sinni gegn ranglæti. Lífið virðist óslitið ævintýri en það koma brestir í vináttuna og kaldur raunveruleikinn ryðst inn í líf þeirra.

Fyrir utan Íslensku barnabókaverðlaunin 1992 hlaut Friðrik Erlingsson ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir Benjamín dúfu. Bókin hefur komið út á fjölda tungumála og hlotið afar lofsamlega dóma. Gerð var kvikmynd eftir sögunni sem sýnd hefur verið víða um lönd og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga.

 Meðal umsagna gagnrýnenda á sínum tíma má nefna að Sigrún Klara Hannesdóttir ritaði í Morgunblaðinu: „Sagan er æsispennandi frá upphafi til enda. Atburðirnir reka hver annan, söguþræðirnir fléttast snilldarlega saman og persónusköpunin er skýr og glögg þar sem enginn er málaður í svart-hvítu. í sögunni er engin miskunn, ekkert dregið undan, en unnið úr vandamálum af djúpum skilningi og mannlegri hlýju. Benjamín dúfa ber ekki með sér neinn byrjendabrag. Þetta er einstök saga, heilsteypt og leiftrandi, sem lætur engan ósnortinn.“

 Benjamín dúfa var að mati Jóhönnu Margrétar Einarsdóttur, gagnrýnanda DV, „með betri barnabókum sem komið hafa út í langan tíma“ og Jón Hallur Stefánsson ritaði í vikublaðið Pressuna: „Friðrik gerir úr efniviðnum bráðlifandi fólk og sjálf sagan er óvenjuleg og spennandi.“ 

Benjamín dúfa er 134 blaðsíður að lengd. Jón Ásgeir hannaði bókarkápu en hún er prentuð í Odda.


Fleiri bækur