Jón Kalman Stefánsson
Jón Kalman Stefánsson er einn af rótgrónum Bjartshöfundum, maður sem hugsar um hag forlagsins seint og snemma og er óþreytandi að stinga upp á nýjum leiðum til að fegra mannlífið með góðum bókmenntum. Hann situr dægrin löng uppi í Mosfellssveit, mundar stílvoppið og sendir líka af til hnitmiðuð skeyti með rafpósti til vina og kunningja.
Jón Kalman hóf feril sinn sem ljóðskáld en þegar leiðir hans og Bjarts lágu saman var hann að leggja lokahönd á smásagnasafn sitt, Skurðir í rigningu. Þetta var árið 1996.
Jón Kalman hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda fyrst fyrir bókina Sumarið bak við brekkuna og seinna fyrir Ýmislegt um risafurur og tímann og Sumarljós og svo kemur nóttin, en hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Sumarljós.
Fiskarnir hafa enga fætur, tíunda skáldsaga Jóns Kalman, kom út haustið 2013 – haustið sem Kalman komst þangað sem íslenska fótboltalandsliðið komst því miður ekki, sem sagt til Brasilíu. En þríleikurinn Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins hefur verið seldur til virðulegs forlags í Sao Paolo.