Bragi Ólafsson
Bragi Ólafsson sendi frá sér sitt fyrsta skáldverk, ljóðabókina Dragsúg, árið 1986. Á þeim tíma var hann kunnur tónlistarmaður og spilaði m.a. með hljómsveitinni Sykurmolunum sem var stofnuð þetta sama ár.
Fyrsta skáldsaga Braga, Hvíldardagar, kom út 1999. Hún vakti verulega athygli og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá tilnefningu hlutu líka skáldsögunar Gæludýrin (2001), Sendiherrann (2006) og Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson (2010). Bragi hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2004 fyrir skáldsöguna Samkvæmisleikir. Leikrit Braga fyrir útvarp og svið hafa líka notið mikilla vinsælda, einkum Belgíska Kongó (2004) og Hænuungarnir (2010). Bragi var tilnefndur til Grímuverðlaunanna sem leikskáld ársins fyrir það verk. Skáldsögum Braga hefur verið tekið vel erlendis, einkum hafa Gæludýrin og Sendiherrann gert víðreist og verið vel fagnað.