Söguþættir landpóstanna
Landpóstar urðu þekktir menn á sinni tíð og nutu virðingar fyrir hreysti og ósérhlífni. Í vetrargaddi og ófærð, skammdegismyrkri og stórhríð, brutust þeir yfir heiðar og fjalladali og létu sér fátt fyrir brjósti brenna. Þeim var líka einatt vel fagnað þegar þeir riðu í hlað og tilkynntu komu sína með því að blása í póstlúðurinn.
Söguþættir landpóstanna nutu um áratuga skeið mikilla vinsælda en bækurnar hafa lengi verið ófáanlegar. Helgi Valtýsson safnaði þar saman frásögnum fjölmargra landpósta og hafa ýmsar þeirra orðið skáldum og rithöfundum innblástur og yrkisefni, auk þess sem hesta- og göngufólk hefur fetað slóðir þeirra. Hér birtist úrval úr þáttunum sem veita innsýn í heim sem að hluta til er horfinn og hlutskipti manna sem hvað eftir annað lögðu líf sitt að veði, fyrir lítil laun, til þess að koma pósti lands manna til skila.
Guðjón Ragnar Jónasson bjó bókina til útgáfu.