
Hlaðan – Þankar til framtíðar
Bergsveinn Birgisson ákveður að endurbyggja hlöðu forfeðra sinna norður á Ströndum sem er komin að hruni. Það fær hann til þess að hugsa um heiminn og stöðu mannsins í honum. Útkoman er ferðalag um tíma og rúm, andlegt sem raunverulegt, í bók sem er engri annarri lík.
"Hvernig það æxlaðist, að ég færi að taka yfir bæ ömmu minnar og afa hér á hjara veraldar, sem eru löngu dáin, er óþarfi að rekja í þaula. Það gerðist helst vegna þess að ég
var sá eini sem sýndi áhuga og fór að laga þá parta sem bersýnilega voru að hrynja, ég fór að dútla við þetta í fráhvarfi mínu frá heiminum, það tengdi mig við heiminn."
Bergsveinn Birgisson skrifar bréf til dóttur sinnar, og rifjar upp hugmyndir manna í fortíðinni um hvernig best sé að haga lífinu, um leið og hann tekst á við hin daglegu verkefni
við endursmíð hlöðunnar, og freistar þess sömuleiðis að horfa til framtíðar. Þá fléttast Strandamenn, lífs og liðnir, inn í frásögnina, sumir koma í heimsókn en aðrir rétta hjálparhönd.
Bergsveinn Birgisson er einn vinsælasti og virtasti rithöfundur landsins og bækur hans koma út um allan heim. Meðal þeirra má nefna verðlaunabækurnar Leitin að svarta víkingnum, Þormóður Torfason, Landslag er aldrei asnalegt og Svar við bréfi Helgu.