Öxin, Agnes og Friðrik
Sagan af Agnesi og Friðriki og morðinu á Natani Ketilssyni á Illugastöðum hefur lifað með þjóðinni í bráðum tvær aldir. Hér fer sagnamaðurinn Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum á kostum í magnaðri frásögn af þessum örlagaríku atburðum en þeir standa honum nær en mörgum öðrum.
Þrístapar, þar sem aftakan fór fram, eru í landi Sveinsstaða. Meira en 100 árum eftir aftökuna kom Agnes skilaboðum til afa Magnúsar, sem þá bjó á jörðinni, um það hvar bein þeirra Friðriks lægju og bað um að þau yrðu færð í vígða mold. Hann fann ásamt Ólafi, föður Magnúsar, líkamsleifarnar og grófu þeir þær upp – og töluðu aldrei um það síðan.
Magnús hefur kafað ofan í söguna af morðinu á Illugastöðum, ástæður voðaverksins og örlög helstu persóna og leikenda. Sýning hans í Landnámssetrinu, Öxin, Agnes og Friðrik, naut mikilla vinsælda og þá hefur hann í mörg ár farið með hópa, ýmist ríðandi eða gangandi, um sögusviðið og sagt þessa örlagaríku sögu.
„Magnús gerir grein fyrir helstu persónum sem birtast í raun ljóslifandi á síðum bókarinnar og harmur þeirra er nánast áþreifanlegur. ... Við lestur þess kafla [um aftökuna] er ekki laust við að maður sé sleginn nokkrum óhug.“ Jakob Snævar Ólafsson, DV.is
„Enn hriktir í hjörtum og tárin renna þegar sagnamaðurinn Magnús Ólafsson segir harmsögu Agnesar, Friðriks og Natans. Einn mesti atburður Íslandssögunnar fær vængi og enginn má undan líta þegar bóndinn á Sveinsstöðum fær málið eftir andvökur og draumfarir og dauðans grimma hatur.“ Guðni Ágústsson