Meistarinn – kilja
Morðdeild sænsku lögreglunnar stendur ráðþrota gagnvart hrottafengnum morðum á konum í Stokkhólmi. Margt bendir til þess að sami maður sé að verki og hann virðist herma eftir aðferðum raðmorðingjans Edwards Hinde sem setið hefur í öryggisfangelsi í fjórtán ár.
Réttarsálfræðingurinn Sebastian Bergman, sem kominn er í öngstræti í lífi sínu, átti stóran þátt í að koma upp Edward Hinde á sínum tíma. Honum hefur tekist að sannfæra fyrrum yfirmann sinn um að taka sig inn í rannsóknarhópinn að nýju en uppgötvar þá sér til skelfingar að allar vísbendingar um morðingjann benda á hann sjálfan.
Sagan er hörkuspennandi frá upphafi til enda þar sem Sebastian Bergman – sem lesendur elska að hata – fær langþráð tækifæri til að koma lífi sínu á réttan kjöl en greiðir það dýru verði.
Þýðandi er Halla Kjartansdóttir.
„Vel skrifuð og hörkuspennandi glæpasaga með höfuðpersónu sem ýtir við lesandanum á margan máta. Besti krimmi jólavertíðarinnar.“
Friðrika Benónýsdóttir, Fréttablaðið
“Meistarinn er sennilega besta spennusagan á íslenska haustmarkaðnum og hún á skilið fullt hús stiga. Hvergi er slegin feilnóta, textinn er vel skrifaður og þýðingin góð.“
Steinþór Guðbjartsson, Morgunblaðið, 12.12.12