Allar litlu lygarnar
„Í tvo áratugi hefur þetta mál vafist fyrir mér, en aldrei bjóst ég við því að einn daginn yrði ég hluti af sögunni.“
Ung velgengnishjón láta lífið af skotsárum á heimili sínu frá tveimur dætrum, kornabarni og unglingsstúlku. Tuttugu árum síðar leitar sú eldri til sálfræðings sem sérhæfir sig í áföllum – og þekkir þau reyndar líka á eigin skinni. Hvað gerðist á þessu mikla fyrirmyndarheimili? Hvers vegna töldu ýmsir innan lögreglunnar að ekki hefðu öll kurl komið til grafar í málinu? Og af hverju er sálfræðingurinn með rannsóknargögn úr því í sínum fórum?
Eva Björg Ægisdóttir hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir glæpasögur sínar, bæði heima og erlendis, meðal annars unnið Blóðdropann – Íslensku glæpasagnaverðlaunin og Gullrýtinginn í Bretlandi fyrir frumraun ársins. Bækur hennar koma út á yfir tuttugu tungumálum.
Allar litlu lygarnar er þéttofin glæpasaga með óvæntum vendingum og heldur lesandanum í heljargreipum allt til enda.
„Eva Björg er snillingur.“ Steingerður Steinarsdóttir, Lifðu núna
„Eva Björg er næsta stórstjarna á sviði íslenskrar glæpasagnagerðar.“ Jakob Bjarnar, vísir.is
„Ef þú hefur aldrei lesið bók eftir Evu Björgu er kominn tími til að bæta úr því þegar í stað.“ The Times