
Indjáninn
„Fæðing mín er annað reiðarslag fyrir fjölskylduna. Að vísu er ég ekki þroskaheftur. Það er léttir. En eftir fæðinguna blasir önnur hryllileg staðreynd við: Ég er rauðhærður. Það hefði ekki getað verið meira áfall þótt ég hefði verið svartur.“
Indjáninn er saga um fjörmikinn strák, örverpi aldraðra foreldra. Drengurinn á við ýmis vandamál að stríða sem valda honum erfiðleikum í uppvextinum, svo sem ofvirkni, athyglisbrest, rautt hár og nærsýni. Hann er hugmyndaríkur og margvísleg uppátæki hans, sum stórhættuleg, vekja litla lukku hjá hinum fullorðnu. Þetta er áhrifamikil uppvaxtarsaga sem sveiflast á milli strákslegrar gleði og nístandi einmanaleika þess sem ekki er alltaf í takt við umhverfið, en jafnframt er hér brugðið upp ljóslifandi mynd af samfélagi áttunda áratugarins frá sjónarhorni barnsins.
Jón Gnarr kallar Indjánann skáldaða ævisögu og segir í eftirmála sínum: „Margir spyrja sig eflaust hvort þessi bók sé ævisaga eða skáldsaga. Hún er bæði. Hún er ekki alveg sönn. Það er þó engin bein lygi í henni. Ég trúi ekki á lygi.“
„Nöturleg og fyndin upplifun barns sem upplifir sig utangarðs.“ Páll Baldvin Baldvinsson, Fréttablaðið
„Indjáninn er fín viðbót við íslensku skáldævisöguflóruna auk þess að vera gott innlegg í umræðu um einelti og þroskaraskanir.“ Soffía Auður Birgisdóttir, Morgunblaðið
„Indjáninn orkaði ekki síst sterkt á mig sem góð lýsing á uppruna minnar kynslóðar sem hefur hingað til verið full-upptekin við rassgatið á sjálfri sér til að kryfja sig af nokkurri alvöru.“ Óttarr Proppé, Lesbók Morgunblaðsins