Urðarköttur
Ég er Urðarköttur. Ég myrði. Ég drep. Mér verður ekkert að aldurtila. Þú munt aldrei ná mér.
Þetta undarlega bréf berst lögreglunni frá manni sem kallar sig Urðarkött. Síðar er litið svo á að bréfið marki upphaf á sérkennilegu morðmáli þar sem tvær konur liggja í valnum; konur sem hittust aldrei í lifanda lífi – að því er menn telja – og tengdust ekkert, sama hversu djúpt lögreglan grefur. Önnur konan starfaði á þjóðfræðistofnun Háskóla Íslands en yfir henni vakir stytta af stofnandanum, goðsögninni Þorbirni Halldórssyni prófessor, en hann orti á sínum mektardögum þekkt kvæði – um urðarkött.
Urðarköttur er önnur glæpasaga Ármanns Jakobssonar. Hér rannsakar sama teymi og í Útlagamorðunum dularfull morð í Reykjavík. Persónurnar spretta ljóslifandi fram í launfyndinni sögu sem erfitt er að leggja frá sér. Með Urðarkettinum skipar Ármann sér hiklaust í hóp fremstu glæpasagnahöfunda þjóðarinnar.
„Urðarköttur er ekki aðeins spennandi saga um glæpi heldur fyndin skemmtisaga. ... vel uppbyggð saga með flóknum karakterum og enn flóknari tengslum.“ ⭐️⭐️⭐️1/2 Steinþór Guðbjartsson, Morgunblaðinu
„Þetta er frumleg og stórskemmtileg sakamálasaga sem óhætt er að mæla með.“ Guðríður Haraldsdóttir, Vikunni