Um karlmenn 19. aldar hafa verið skrifaðar fjöldi ævisagna en konur þessa tíma hafa lent meira baksviðs, enda heimildir um þær oft færri, minna rannsakaðar eða ekki taldar merkilegar. Hér er komið tímamótaverk, ein af stórum kvenævisögum 19. aldar.
Strá fyrir straumi – Ævisaga Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871
Sigríður Pálsdóttir fæddist árið 1809 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði en dó árið 1871 á Breiðabólstað í Fljótshlíð eftir viðburðaríka ævi.
Svo vill til að um Sigríði eru óvenju ríkulegar heimildir, því umfangsmikið bréfasafn tengt henni er varðveitt. Á þeim grunni hefur Erla Hulda Halldórsdóttir skrifað þessa tímamótabók sem varpar nýju ljósi á 19. öldina. Hér er staldrað við aðra hluti en í ævisögum karlanna og lesendur fá sterka tilfinningu fyrir og hlutdeild í hversdagslífi 19. aldar. Hér er fjallað um hið stóra og smáa: Ást, börn og bónorð, líf og dauða, bækur og sjúkdóma, hunda og hordauðar kindur ... svo fátt eitt sé nefnt.
Þar sem Sigríður Pálsdóttir umgekkst bæði leika og lærða, hátt setta embættismenn sem bændur, biskupa og niðursetninga, veitir ævisaga hennar óvenju heildstæða mynd af hinni söguríku og mikilvægu 19. öld. Og þar sem sjónarhornið er konu kemur ýmislegt nýtt fram og annað sér lesandi í nýju ljósi.
Erla Hulda Halldórsdóttir er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og hefur rannsakað sögu kvenna í áratugi. Hún hefur skrifað um efnið fjölda greina og bóka, var ein höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga, og sendi síðast frá sér bókina Ég er þinn elskari.
TILNEFND TIL FJÖRUVERÐLAUNANNA 2024
„Í Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 dregur Erla Hulda Halldórsdóttir upp lifandi mynd af íslensku samfélagi með greiningu og túlkun á sendibréfum nítjándu aldar. Í þessu vandaða verki fá lesendur að kynnast orðfæri kvenna, samfélagsgreiningum þeirra og aðferðum til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Jafnframt miðlar Erla Hulda aðferðum sínum á upplýsandi hátt, setur rannsóknarspurningar í alþjóðlegt fræðasamhengi og hvetur þannig lesendur til að rannsaka bréfasöfn fyrri kynslóða og kynnast þeim „venjulegu“ röddum sem þar má finna.“ Umsögn dómnefndar um Fjöruverðlaunin