Skegg Raspútíns
,,Einhvern tíma rakst ég á samanburð á enskum og spænskum farsa. Í þeim enska eru allir í örvæntingu að reyna að losna úr pínlegum aðstæðum; í þeim spænska eru allir á barmi taugaáfalls en hafa lúmskt gaman af því. Nú rann upp fyrir mér að líf okkar Ljúbu var spænskur farsi.“
Eva og Matti hafa nýlega umbylt lífi sínu og flutt úr miðborginni til smábæjar utan borgarmarkanna, en sitja samt uppi með sjálf sig og hvort annað. Vandamálin vaxa og óveðurský hrannast upp. Þá kynnist Eva rússneskumælandi garðyrkjubónda, Ljúbu, sem segir henni litríka sögu sína og fjölskyldunnar.
Sögur kvennanna tveggja spegla hvor aðra og vinátta þeirra hefur mikil áhrif á líf beggja. Úr verður einstök frásögn, skrifuð af þeim hlýja mannskilningi sem einkennir verk Guðrúnar Evu – um hlutskipti kvenna, samskipti kynjanna, örlög, frumkvæði, nánd og þau sannindi sem draumar geyma.
Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir Allt með kossi vekur og Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Yosoy árið 2006 og Englaryk árið 2014.
„Guðrún Eva Mínervudóttir bregst ekki lesendum í nýútkominni bók sinni Skegg Raspútíns. Þar sýnir hún enn og aftur hvað hún er frábær höfundur og mikill grúskari, eins og sést hefur á öllum skáldsögum hennar.“ ****1/2 Jóhanna María Einarsdóttir, DV
„Skegg Raspútíns er einstaklega falleg og djúp saga sem dregur fram hið skáldlega í raunveruleikanum og gerir sannleikann að skáldskap.“ Guðrún Baldvinsdóttir, Rás 1
„Frábærlega skemmtileg bók … Maður fær næstum því einhvers konar Ferrante-tilfinningu … hún gengur miklu nær sér en ég hélt. … Dásamleg lesning.“ Sunna Dís Másdóttir, Kiljunni.
„Algjörlega mögnuð bók. Mér finnst þetta vera bók um hugrekki.“ Þorgeir Tryggvason, Kiljunni.
„Hvernig er hægt að vera svona ljóðrænn og um leið svona töff og hitta naglann á höfuðið? … Dásamleg bók.“ Jórunn Sigurðardóttir, Orð um bækur
„Hvar sem á Skegg Raspútíns er litið þá er þetta firnasterk skáldsaga. Vel skrifuð, vel stíluð, með sterkri persónusköpun og heildstæðum söguheimi. Heildstæð og falleg skáldsaga sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.“ ***** Magnús Guðmundsson, Fréttablaðinu