Læknirinn í Englaverksmiðjunni
Þegar Ásdís Halla Bragadóttir fór að forvitnast um fjölskyldu blóðföður síns sem hún kynntist á fullorðinsárum var fátt um svör þegar hún spurðist fyrir um einn mann: Dr. Moritz Halldórsson. Af hverju stafaði þessi þögn um íslenskan lækni sem starfaði í Kaupmannahöfn og Vesturheimi? Forvitni hennar var vakin.
Eftir heimildaleit í fjórum löndum tókst Ásdísi Höllu að svipta hulunni af ævintýralegu lífshlaupi manns sem átti sér stóra drauma og fjölskylduleyndarmálum sem aldrei áttu að verða afhjúpuð. Inn í söguna fléttast mestu fjöldamorð í sögu Danmerkur, sjálfstæðisbarátta Íslendinga, Vesturferðir, helstu ráðamenn þjóðarinnar – og Kristján níundi Danakonungur.
Hér segir Ásdís Halla Bragadóttir loksins magnaða og áhrifamikla sögu dr. Moritz Halldórssonar læknis. Hún hefur áður skrifað ævisögurnar Tvísaga og Hornauga sem báðar urðu metsölubækur og hlutu einróma lof.
„Þetta er heillandi saga – algjörlega. Og var manni hulin. Þú ert að leiða okkur inn í nýjan heim.“ Egill Helgason, Kiljunni
„Stórmerkileg saga.“ Kolbrún Bergþórsdóttir, Kiljunni
„Ásdís Halla Bragadóttir er orðin meðal allra bestu og vinsælustu höfunda á Íslandi ... Snilldarbók sem á hiklaust skilið að verða verðlaunabók.“ Elín Hirst, Fréttablaðinu
„[Ásdís Halla] er virkilega góður penni sem hefur gríðarlega hæfileika í að skrifa góðar fjölskyldusögur. Saga Moritz er hádramatísk saga sem náði mér á fyrstu blaðsíðum bókarinnar og hélst ég það vel við lesturinn að ég kláraði hana á einu kvöldi. Ég gat ekki lagt bókina frá mér ... fræðandi og spennandi bók sem kitlar þá lesendur sem elska sögulegt efni en vilja líka hafa smá spennu og snúning í söguþræði bókanna sem þeir lesa.“ Jana Hjörvar, Lestrarklefinn.is