Endurkoman
Símtal frá Bretlandi kemur róti á huga hálfíslensks læknis í New York. Hefur Magnús Colin lifað í blekkingu frá barnæsku? Hefur hann aldrei séð foreldra sína í réttu ljósi?
Um leið og Magnús þarf að horfast í augu við fortíð sína fær hann til rannsóknar óþekkta konu sem finnst í dái eftir slys á afskekktum vegi. Þegar hann fer að gruna að hún sé með meðvitund en læst inni í eigin líkama vakna áleitnar spurningar um hver hún er, um sjálfan hann – og ekki síst um Malenu, konuna sem hann elskar.
Endurkoman er seiðmögnuð skáldsaga um ástina og leitina að hamingjunni, einsemd og söknuð, brotthvarf – og endurkomu. Ólafur Jóhann Ólafsson hefur hlotið margháttaða viðurkenningu fyrir verk sína víða um lönd en þau hafa komið út á yfir tuttugu tungumálum.
„Afar grípandi samtímasaga sem er skrifuð af mikilli snerpu.“ Einar Falur Ingólfsson, Morgunblaðinu
„Skapar stemmningu og heim sem manni finnst seiðandi.“ Sunna Dís Másdóttir, Kiljunni
„Þetta nær manni. Mann langar til að vita hvernig þetta fer allt saman.“ Þorgeir Tryggvason, Kiljunni
****
„Framvindan er fumlaus og örugg … Allt er þetta ákaflega vel gert. … Falleg og vel skrifuð bók sem varpar fram stórum spurningum og lætur lesandanum eftir að leita svara.“ Magnús Guðmundsson, Fréttablaðinu
****
„Ein besta skáldsaga Ólafs Jóhanns.“ Maríanna Clara Lúthersdóttir, Morgunblaðinu