Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu
Í afskekktri pólskri sveit eyðir Janina dögum sínum í að lesa stjörnuspeki, þýða kveðskap Williams Blake og sjá um sumarhús fyrir auðuga íbúa Varsjár. En einn daginn finnst nágranni hennar, sem hún kallar Háfeta, dauður við einkennilegar aðstæður. Svo fjölgar hinum dauðu og eftir því sem rannsókn lögreglu vindur fram blandar Janina sér æ meira í hana þar sem hún þykist viss um hvað búi að baki morðunum.
Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu er bókmenntaleg glæpasaga og ævintýri sem er auk annars ögrandi rannsókn á hinum myrku og óljósu mörkum heilbrigðis og geðveiki, réttlætis og hefðar, sjálfsstjórnar og örlaga. Bókin fékk frábærar viðtökur, var m.a. tilnefnd til hinna virtu, alþjóðlegu Man Booker-verðlauna árið 2019 og varð mikil metsölubók í Póllandi.
Olga Tokarczuk er einn virtasti rithöfundur heims og hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2018.
Árni Óskarsson þýddi.
„Janina Duszejko er einhver magnaðasta bókmenntapersóna og skemmtilegasti en jafnframt bölsýnasti og bálreiðasti sögumaður sem hefur sprottið fram á síðum bókmenntanna um langa hríð.“ Magnús Guðmundsson, Orð um bækur