Oddný Eir Ævarsdóttir
Oddný Eir gaf Bjarti fyrst undir fótinn um miðjan tíunda áratuginn þegar hún tók þátt í póstkortasamkeppni forlagins og var hún meðal þeirra sem komust í fjórtán liða úrslit. Það var hins vegar ekki fyrr en vorið 2004 að hún slóst í hóp bókarhöfunda forlagins þegar verk hennar Opnun kryppunnar kom út í ritröðinni Svörtu línunni.
Oddný Eir er heimspekingur, menntuð í París, en hún hefur einnig rekið útgáfufyrirtækið Apaflösu ásamt Ugga Ævarssyni, skrifað kvikmyndahandrit og unnið við ferðaþjónustu á einskonar uppeldisstöðvum sínum á Grímstöðum á fjöllum og stundað rannsóknir á minjamenningu og myndlist á Íslandi og unnið með fjöldanum öllum af lista- og fræðimönnum.
Oddný Eir er óforbetranlegur safnari, áhugamanneskja um brúðuleikhús og katakombur, aðdáandi Chaplins, Derrida, Milans Kundera og Hönnuh Arendt, unnandi smávindla og afkomandi Bólu-Hjálmars.
Skáldsögur hennar Heim til míns hjarta (2009) og Jarðnæði (2011) hlutu báðar einróma lof. Oddný hlaut Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Jarðnæði. Bóksalar kusu þá bók eina bestu bók ársins 2011. Hún er fáanleg í kilju.
Oddný Eir hlaut Evrópsku bókmenntaverðlaunin haustið 2014 og tók á móti verðlaunum í Brussel. Hér er rapport Evrópusambandsins af viðburðinum. Og hér frásögn fréttaritara Bjarts.
Ástarmeistarinn er nýjasta skáldsaga Oddnýjar og kom út í nóvember 2014. „Frumleg og fersk ástarsaga sem opnar lesandanum nýjar víddir.“ sagði Friðrika Benónýsdóttir í Fréttablaðinu. Umfjöllunina í heild sinni má sjá hér.