Ingunn Snædal
Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum 1971 og ólst upp á Jökuldal. Hún lauk B.ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1996 og lagði stund á írskunám við háskólann í Galway á Írlandi 1996-97. Árið 2006 hóf hún nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Á Íslandi hefur hún kennt í grunnskólum auk þess að vera prófarkalesari, ráðskona í vegavinnu, bensínafgreiðslumaður, þjónustustúlka, sendisveinn, keyra út póst, vinna á síldarvertíð, semja auglýsingar og vera einkakennari.
Ingunn er höfundur ljóðabókanna Guðlausir menn, Í fjarveru trjáa, Komin til að vera, nóttin og Það sem ég hefði átt að segja næst: þráhyggjusögur. Ingunn hefur líka þýtt bækur fyrir Bjart og má þar nefna Hrikalega skrítnar skepnur, Síðasta uppgötvun Einsteins og Týnda táknið (ásamt öðrum).