Ida Simons

Ida Simons

Rithöfundurinn Ida Simons fæddist í Antwerpen árið 1911. Við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar flýði hún með foreldrum sínum – ásamt rúmlega einni milljón Belga – til Hollands. Þau settust að í Scheveningen, litlum strandbæ ekki langt frá Haag þar sem myndast hafði líflegt samfélag gyðinga, og gerðust hollenskir ríkisborgarar.

Eins og aðalpersónan í bókinni Fávís mær varð Ida Simons snemma elsk að tónlist og lifði fyrir drauminn um að verða píanóleikari. Nítján ára gömul var hún farin að koma fram á tónleikum og varð með tímanum þekkt nafn í evrópskum tónleikasölum, en innrás Þjóðverja batt enda á ferilinn.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina bjuggu um 140.000 gyðingar í Hollandi, en þegar nasistar höfðu hertekið landið og endurmetið fjöldann samkvæmt sínum kynþáttaskilgreiningum varð opinbera talan 154.000. Komið var á skipulegu kerfi í kringum flutninga þessa fólks í fangabúðir og mannaveiðarnar hófust. Þegar yfir lauk voru aðeins um 35.000 hollenskir gyðingar eftir.

Í Hollandi þurftu nasistar engan stórkostlegan viðbúnað við ofsóknir sínar, því innviðirnir voru fyrir hendi. Hollenskar heimilisskrár gerðu nasistum kleift að finna gyðingana, hollenskir lögreglumenn handtóku þá og hollenskar lestir með hollenskum starfsmönnum fluttu þá á vit dauðans. Handlangari Hitlers í málum gyðinga, Adolf Eichmann, hafði þau orð um að unun væri að fylgjast með því hve lipurlega flutningarnir gengju fyrir sig.

Ida Simons var flutt með fjölskyldu sinni til Westerbork árið 1943, og þaðan áfram til Theresienstadt. Hún lifði af. Í báðum þessum fangabúðum hélt Ida tónleika. En eftir vistina þar stríddi hún við alvarlegan heilsubrest, og að stríðinu loknu neyddist hún til að segja skilið við líf konsertpíanistans og helgaði sig skriftum þann tíma sem hún átti eftir ólifaðan.

Skáldsagan Fávís mær gerist á miðjum þriðja áratug síðustu aldar og veitir magnaða innsýn í líf vel stæðra gyðinga í Haag og Antwerpen á millistríðsárunum.

Enda þótt sagan sé skrifuð í lok 6. áratug síðustu aldar, er aðeins eina vísun að finna í fjöldamorðin sem æ síðan hafa litað sögu Evrópu. Það er þegar aðalpersónan Gittel segir frá afa Miliar, vinkonu sinnar, og dálæti hans á þeim gyðinglega sið að segja antisemitíska brandara.

„Afi Harry var antisemitískur gyðingur; það var ekki alveg óþekkt meðal samtíðarmanna hans. Þeir höfðu af því fremur græskulaust gaman sem gasklefakynslóðinni stendur ekki til boða.“

Setningin er dæmigerð fyrir stíl Idu Simons: Í einni málsgrein, og án nokkurrar tilfinningasemi, tengir hún saman fortíð og nútíð, sakleysi og missi, og gefur til kynna að ekkert geti nokkurn tíma orðið eins og áður.

Hin mjög svo sjálfsævisögulega frásögn um Gittel kom fyrst út árið 1959 og sló strax í gegn, hlaut mikið lof gagnrýnenda og eignaðist stóran lesendahóp. En fangabúðavistin sagði til sín, heilsu Idu Simons hrakaði stöðugt og ári eftir útkomu bókarinnar lést hún, aðeins 49 ára að aldri. Rithöfundarverk hennar féll í gleymsku þar til fyrir skömmu þegar sagan um Gittel var gefin út að nýju í Hollandi, hún varð aftur metsölubók og kemur nú út um allan heim.

 

Byggt á formála sænsku útgáfunnar, eftir Elisabeth Åsbrink.