Hannes Sigfússon

„Þessi bók er án efa það lélegasta byrjendaverk, sem íslenzkar bókmenntir hafa nokkru sinni séð“, skrifar ritdómari Mánudagsblaðsins um Dymbilvöku, fyrstu ljóðabók Hannesar Sigfússonar. Bókin, sem Hannes gaf út sjálfur, kom út þann 11. maí árið 1949, og birtist umsögnin tæpum mánuði síðar. „Þessi heilauppköst“, skrifar ritdómarinn „eru svo ólystileg, að engu tali tekur, og þar er ekki að finna svo mikið sem lykt af ljóði.“ Og dómurinn endar á afdráttarlausri yfirlýsingu:

 

Þegar svona lagað leirbull hlýtur nafnið ljóð, er tími til kominn að kaupa kranzinn á gröf skáldskaparguðsins.

 

Hannes var nýorðinn 27 ára þegar Dymbilvaka kom út, og þá voru þrettán ár liðin síðan hann hafði einsett sér að verða rithöfundur. Hannes Sigfússon (1922–1997) var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar, brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð og mikilvirkur ljóðaþýðandi. Dymbilvaka, sem út kom 1949, er líklega hans þekktasta verk, Kyrjálaeiði, sem kom út 1995, var í framboði af Íslands hálfu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1997. Skáldsögur Hannesar eru Strandið (1955) og Ljósin blakta (1993). Meðal þýðinga Hannesar eru Norræn ljóð, 1972, Blóðbrullaup eftir Garcia Lorca, 1959, og bækur eftir William Heinesen og Knut Hamsun. Síðustu árin þýddi hann meðal annars eftir Herbjörgu Wassmo og Torgny Lindgren. Hann stundaði gagnfræðanám við Ingimarsskólann í Reykjavík og vann ýmis störf, en á unglingsárum var hann einnig við nám í refarækt í Noregi. Hann var um skeið aðstoðarvitavörður í Reykjanesvita og nokkur ár starfsmaður hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur. Hann þýddi ennfremur fjölda bóka og sendi frá sér margar frumsamdar bækur, ljóð, skáldsögur og æviminningar.