Bergsveinn Birgisson
Bersveinn Birgisson hafði sent frá sér ljóðabækur og geisladiska með tónlist þegar hann sendi Bjarti handrit sitt að skáldsögunni Landslag er aldrei asnalegt. Þetta var vorið 2002 og var Bergsveinn þá við nám í norrænum miðaldabókmenntum í Noregi. Starfsmenn á ritstjórn forlagsins kolféllu fyrir sögunni en vegna ýmissa ástæðna dróst útgáfa bókarinnar fram til haustsins 2003. Það kom ekki að sök; bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Landslagið var endurútgefin í kilju árið 2011.
Síðan hefur Bergsveinn skrifað hina rómuðu Handbók um hugarfar kúa og hið víðförla Svar við bréfi Helgu, síðbúið svar Bjarna bónda hefur komið út um víða veröld – t.d. í Danmörku, Noregi, Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi – og er von á henni á enn fleiri tungumálum. Leikgerð eftir bókinni var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2012.