Pálssaga eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson er „eitt af meistaraverkum 20. aldarinnar,“ að mati Arnaldar Indriðasonar. Hér birtist lokahluti hans, Drekar og smáfuglar, en áður hafa komið út í einni kilju fyrri hlutarnir tveir, Gangvirkið og Seiður og hélog. Skáldverk Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um Pál Jónsson blaðamann er stórbrotið uppgjör við mestu átakatíma síðustu aldar á Íslandi, hernámið og eftirstríðsárin. Ólafur Jóhann Sigurðsson (1918–1988) var einn af helstu stílsnillingum síns tíma og fer á kostum í Pálssögu. Persónurnar endurspegla margslungið andrúmsloftið í samfélaginu og eru í senn skoplegar og tragískar. Ólafur Jóhann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976, fyrstur Íslendinga.
„Einhver hetjulegasta tilraun sem ég hef séð til að gera upp sakir við dramatískasta tímabil Íslandssögunnar á þessari öld … Það er máski einn af mestu kostum þessa verks í heild að maður getur verið á annarri skoðun um ýmislegt sem þar er vikið að, en lesið sér samt til nautnar og örvunar. Þannig verður aðeins sagt um mjög góðar bækur.“ Heimir Pálsson, Helgarpóstinum, 1. desember 1983.
„Eitt af öndvegisverkum íslenskrar skáldsagangerðar.“ Vésteinn Ólason, Tímariti Máls og menningar, 1983.
Pálssaga – Drekar og smáfuglar er 563 blaðsíður að lengd, kilja