Strendingar - fjölskyldulíf í sjö töktum
Sérhver fjölskylda geymir mörg líf og margar raddir. Pétur vinnur fyrir auglýsingastofu en elur með sér skáldadrauma. Eva kona hans stendur í ströngu sem byggingafulltrúi á Stapaströnd. Saman eiga þau þrjú börn; unglinginn Silju, sem hefur annan fótinn í öðrum heimi, viðkvæma sex ára drenginn Steinar og ungbarnið Ólafíu. Auk þess er á heimilinu eðalborinn og ævaforn köttur, kallaður Mjálmar, og þangað kemur líka faðir Péturs, Bergur, fyrrum bóndi sem hefur nýverið misst konu sína og er við það að hverfa inn í heim gleymskunnar.
Í þessari skemmtilegu og áhrifamiklu skáldsögu fylgjumst við með hálfu ári í lífi fjölskyldu, þar sem allir sjö hugarheimar hennar fá rödd. Þannig fléttast saman innra líf þeirra og ytri atburðir, valdabarátta og áföll, togstreita og uppeldisátök, gamall tími og nýr, í marglaga og minnisstæðri sögu.
Yrsa Þöll Gylfadóttir vakti mikla athygli fyrir snjalla fléttu og blæbrigðaríkan stíl í síðustu skáldsögu sinni, Móðurlífið, blönduð tækni.
„... trúverðug, nákvæm og nærfærin endursköpun hversdagslífsins [þar sem] Yrsa nær hvað eftir annað að sýna okkur smámyndir af hversdegi, kenjum og hinu óvenjulega í venjulegu bjástri nútímaíslendingsins, sem gleðja og vekja.“ Þorgeir Tryggvason, bokmenntaborgin.is
„Langt síðan ég hef lesið bók sem snerti mig eins og þessi gerði. Ég er mjög hrifin ... nær gríðarlega heildstæðri sögu ... Ég varð klökk ... Mæli svo innilega með.“ Aðalbjörg Bragadóttir, N4
„Yrsa Þöll Gylfadóttir ekki lengur „ung og efnileg“. Hún er afar athyglisverður og fær rithöfundur, skemmtilega gagnrýnin og svolítið kjaftfor (sem rithöfundar mega vera) og ég vænti mikils af henni á næstu árum.“ Kristján Jóhann Jónsson