1900 og eitthvað
Ragnheiður Lárusdóttir hlaut Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar árið 2020 fyrir bók sína 1900 og eitthvað.
Í umsögn dómnefndar segir:
„1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur er heillandi uppvaxtarsaga prestsdóttur að vestan, vegferð hennar um torfarnar heiðar jafnt sem lífsins rangala.
Ljóðmælandi dregur upp tærar hversdagsmyndir sem í fyrstu virðast léttvægar; hálfdauðar flugur í gluggakistu kirkjunnar; póstskorturinn sem skellur á þegar ófært er yfir heiðina. En þegar líða tekur á verkið verður lesanda ljóst að það er einmitt í þessum léttvægu stundum sem lífið liggur og örlögin ráðast. Það fellur að og fjarar út, bönd verða til og þau slitna, draumar rætast og vonir bresta, allt yfir kaffibolla, nýveiddum silungi og Andrésblöðum.
1900 og eitthvað er heildstætt verk, falleg saga af uppvexti stúlku í heimi sem er ekki alltaf hennar. Einfaldleikinn er tær og ómengaður. Dregnar eru upp skýrar myndir frá síðustu öld þar sem prestar ferðast á milli fjarða á skíðum til að messa, útvarpið er eina tengingin við umheiminn og fjársjóðurinn sem skipin færa að landi eru eplakassar. Þrátt fyrir erfiðið er dísæt hamingja víða, púðursykur og pönnsur.
1900 og eitthvað er hófstillt verk um stórfengleika hins smáa og áhrifamátt hversdagsleikans.“
„Kom mér skemmtilega á óvart ... verulega vel unnið verk.“ Aðalbjörg Bragadóttir, n4