Jarðnæði
Oddný Eir Ævarsdóttir

Jarðnæði

Fullt verð 0 kr 0 kr

FJÖRUVERÐLAUNIN 2011

Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Þriðja besta bók ársins að mati bóksala.

 

„Hún hefur skemmtilega og frjóa hugsun … skemmtilega skrifuð bók og gaman að lesa hana.“– Kolbrún Bergþórsdóttir, Kiljan

„Mikil ástarsaga.“- Páll Baldvin Baldvinsson, Kiljan

 

* * * *

“Sjálfsæviskrif Þórbergs Þórðarsonar koma einna helst upp í hugann við lestur Jarðnæðis. Yfir skrifunum svífur sama einlægnin og hnyttnin, andinn svolítið barnslegur þannig að minnir nokkuð á Ofvitann. Oddný er algerlega laus við allt sem heitir tilgerð, textinn er sannur og meitlaður og gríðarlega fyndinn á köflum. Hér er engu ofaukið og einskis vant og í heildina er þetta einlæg og bráðskemmtileg bók, sneisafull af skemmtilegum pælingum og fallegum setningum.” 

Anna Lilja Þórisdóttir, Morgunblaðið 7. desember

 

“Ástarsagan í bókinni kemur með erótíska vídd inn í hana, vissan hversdagslegan hita. Þetta er á köflum volg bók, holdleg, og yfirleitt blíð og mjúk…. Oddný leikur sér mikið í þessari bók; leyfir sér að teygja tungumálið í margar áttir, nota slangurorð og skemmtilegt tal- og barnamál… Bókin er fjörlega stíluð og sérviskuleg, höfundurinn lætur flest flakka í belg og biðu, spurningar, stórar sem smáar og lætur sig flest mannlegt varða… Í tilfelli Oddnýjar tekst henni vel að skapa flæði í bókinni og textinn rennur áfram, án þess þó að hún fari yfir strikið og tapi sér og lesandandum í hugrenningum sínum.” 

**** DV, 9. desember, 2011, Ingi Freyr Vilhjálmsson

 

 “Oddný Eir hefur nú þegar skapað sér sérstöðu meðal íslenskra höfunda. Texti hennar er bæði fallegur og stórfróðlegur í senn, stíllinn djarfur og einkennilegur. Það besta við Oddnýju við höfund þykir mér þó grallaraskapurinn í henni. Hún hikar ekki við að leika sér með orð og setningar, jafnvel búa til orð eftir hentugleikum- og texti hennar er svo sannarlega úr lífrænu efni.” 

* * * * Fréttablaðið, 28. nóvember, 2011. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

“Jarðnæði er eins og Heim til míns hjarta margt í senn; skopleg lýsing á sálinni a la Þórbergur, heimspekilegt spjall og kostuleg kistulagning með loforði um sprellandi upprisu. en mest er þó um vert að hún er einlæg og falleg tilraun til að ná tökum á verunni með orðum sem falla ekki að vananum heldur eru notuð til að byggja upp stóran vef með nýjum blöðum og blómum, sköpun sem er heillandi í fegurð og skörp í útlínum minnis og miða… Þetta er semsagt galdrabók og ratar þannig ekki alveg í formin á markaðnum.” 

* * * * * Fréttatíminn, 2. desember, 2011. Páll Baldvin Baldvinsson

“Nándin er hér eins og í fyrri verkum Oddnýjar til umfjöllunar. Einkum nándin við kærastann og bróðurinn í þetta sinn og hugleiðingar um hvers konar nánd sé eftirsóknarverð, ‚viðeigandi‘, bætandi en ekki tæmandi. Hún veltir fyrir sér sambandi sínu við bróður sinn á ýmsa vegu og finnur hliðstæður og andstæður í öðrum systkinasamböndum eins og hjá Dorothy og William Wordsworth…Oddný hefur pússað sitt form, jaðarform bókmenntanna, eins og hún kallar það og býður lesandanum uppá náin kynni og lesandinn þarf í raun að gangast inn á þau kynni til að njóta textans… Þótt gripurinn sjálfur sé fagur eins og við var að búast, þá er þetta að sjálfsögðu ekki líkamleg nánd heldur textaleg, sem með vísunum sínum fram og aftur í tíma, sögur, bókmenntir o.fl., skapar einnig næði fyrir lesandann til að finna sitt eigið rými og skrifa sína eigin sögu.” 

Bókmenntir.is desember, 2011. Gunnþórunn Guðmundsdóttir

“Eitthvað við þessa bók gerir það að verkum að allar greiningar á henni eru óþarfar og engin gífuryrði ríma við hið kyrrláta andrúmsloft hennar…Vanalega næ ég ekki nema rétt leggja höfuðið á koddann, opna bók og lesa örfáar línur áður en ég byrja að dotta. En eitthvað gerðist þegar ég las þessa bók. Í stað þess að rúlla strax út af las ég oft marga kafla í einu á kvöldin og var enn að lesa löngu eftir að allir aðrir voru sofnaðir. Og þarna, við litla ljóstýru í myrkrinu, með dumbrauða bók í höndunum og þungan andardrátt annarra fjölskyldumeðlima streymandi yfir mér fann ég óvænt mitt jarðnæði.” 

Druslubækur og doðrantar, desember, 2011. Guðný Lára

 

“Umfram önnur verk sem ég hef lesið þetta árið mótast Jarðnæði nefnilega af rósemdarlegu en engu að síður magnþrungnu sambandi við tungumálið, þar sem frumleg og leikandi málvitund skapar frjálslegu vitundarvappi umgjörð og vettvang… Hér er á ferðinni ástarsaga, sögumaður tengist ástmanni sínum Fugla snemma í bókinni og frásögnin hverfist að mörgu leyti um það vandasama ferli sem í hönd fer þegar tvær manneskjur ákveða að deila sínu jarðnæði, eða leita í sameiningu að nýju.

Ég held þó að sagan af Fugla sé ekki eina ástarsagan í sögunni. Sambandið við bróðurinn Ugla er afskaplega náið og einlægt, en stundum virðist það líka leika á mörkum hins transgressífa, og ganga vangaveltur um ástir systkina í gegnum bókina. Og þar komum við aftur að systkinunum William og Dorothy, en Dorothy bjó lungann af ævinni með bróður sínum og var samband þeirra skáldinu yrkisefni…. En þannig snýst bókin einnig á djúpstæðan hátt um sjálfræði og sjálfstæði og segja má að þessi leit, þessi þroskasaga sögumannsins, kallist á við hugmyndina um jarðnæði í sögulegu samhengi, jarðnæði var jú mikilvægasti og kannski eini frelsiskostur vinnumannsins sem vildi verða bóndi í íslensku sveitasamfélagi fyrri tíma. Þannig má segja að verkinu takist að skapa afskaplega áhrifamikið og þéttriðið merkingarnet þar sem hugleiðingar um breytileika tilverunnar og það hvar raunverulega kjölfestu í lífinu sé að finna – hvernig hin fullkomna heimvera, ef svo má að orði komast, lítur út – tengjast með táknrænum hætti áherslunni sem lögð er á fornleifa- og þjóðháttafræði í bókinni, sem vísar eins og áður segir til baráttu forfeðranna fyrir sjálfstæði og jarðnæði.

Víðsjá, 15. desember, 2011. Björn Þór Vilhjálmsson

“Oddný eir nýtir sér galdur dagbókarformsins sem felst í því að hversdagslegustu og persónulegustu upplifanir ná oft að kveikja í lesandanum óstjórnlega forvitni að vita meira… Það myndast því persónuleg nánd milli sögumanns og lesanda í þessari bók þótt höfundurinn flétti heimspekilegum og samfélagslegum vangaveltum saman við einkalífslýsingar. Tónninn er persónulegur og oft ljóðrænn, stutt í fantasíuna. Hver hugsunin stekkur upp úr annarri í hugmyndaflæði sem hefur þó þugan meginstraum. Og Oddný Eir bremsar alltaf áður en hún verður of háfleyg, kallar sjálfa sig niður á jörðina, stundum með hálfgerðum töfraþulum, orðarunum.” 

Spássían, desember, 2011. Auður Aðalsteinsdóttir

 

 

Dómur í Spássíu: http://spassian.is/greinar/2011/12/uppdráttur-að-samfélagi

Dómur í Víðsjá: http://www.ruv.is/frett/bokmenntir/ritdomur-um-jardnaedi

Dómur í DV:  http://www.dv.is/menning/2011/12/9/farfugl-leitar-rota/ 

 

 

Kápu hannaði Ragnar Helgi Ólafsson. 

Prentuð í Odda. 

 


Fleiri bækur